þri 29. október 2019 13:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Fyrirtæki farin að draga úr styrkjum til félaga - KA lækkar kostnað
Sævar Pétursson.
Sævar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik hjá KA.
Úr leik hjá KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Rólegra hefur verið á leikmannamarkaðinum í Pepsi Max-deildinni í haust heldur en oft áður. Félög virðast vera að búa sig undir erfiðra rekstrarár á næsta ári en fyrirtæki eru að draga saman seglin þegar kemur að styrkjum til íþróttafélaga.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, ræddi þetta í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu á laugardaginn.

„Við erum að pínu varir við þetta. Október og nóvember er sá tími ársins þar sem við erum að endurnýja samstarfssamninga okkar og fyrirtæki eru í áætlunargerð, Það er nokkuð ljóst að það er minna fé sem fyrirtæki ætla að setja í styrki og auglýsingamál á næstu ár. Þá er auðvelt að skera niður peninga til íþróttafélaga og við erum að glíma við þetta líklega eins og flest félög," sagði Sævar í útvarpsþættinum.

„Íþróttafélögin eru að glíma við það að það er erfitt að fara að skuldbinda sig í leikmannamálum á meðan þú veist ekki alveg hvað verður til í veskinu á næsta ári," sagði Sævar en hann segir ljóst að KA þurfi að skera niður í kostnaði við meistaraflokk karla.

„Mér sýnist við þurfa að skera niður um tíu prósent á milli ára," sagði Sævar. „Þá ræðir þú ekki við 25 manna hópinn hjá liðinu og segir öllum að skera niður um 10%. Við erum með 6-7 leikmenn sem við endurnýjum ekki samninga við og þá koma kannski þrír leikmenn inn á móti. Liðin minnka leikmannahópana sína."

Rekstrarkostnaður meistaraflokka 100-300 milljónir
Sævar segir að vel hafi gengið að safna styrkjum undanfarin ár en nú séu fyrirtæki að draga saman.

„Síðustu 3-5 ár hafa fyrirtæki tekið íþróttafélögum opnum örmum og þau hafa viljað styrkja félög. Núna erum við að finna fyrir því að það er samdráttur í fyrirtækjum og þá er auðveldara að skera niður styrktarsamninga við íþróttafélög en að þurfa að segja upp eigin starfsfólki. Mér sýnist á því sem er að gerast á markaðinum núna hjá félögunum að þau eru miklu varkárari. Það hafa litlar breytingar orðið frá því að tímabilinu lauk og mig grunar að félög séu að nýta sér það ef leikmenn eru með endurskoðunar eða uppsagnarákvæði í október."

Mikið bil er á milli rekstarkostnaðar hjá félögum í Pepsi Max-deildinni. „Ég held að Pepsi-deildarklubbar í dag séu reknir á bilinu 100-300 milljónir. Það er svolítið stórt bil. Það eru klúbbar sem hafa verið nokkur ár í Evrópukeppni og þar kemur meira fjármagn og meiri umgjörð eins og við þekkjum úti um allan heim," sagði Sævar.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Sævar Péturs útskýrir lægðina á leikmannamarkaðinum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner