lau 29. október 2022 20:48
Brynjar Ingi Erluson
England: Fyrsti sigur Leeds á Anfield í 21 ár
Leeds vann Liverpool á Anfield
Leeds vann Liverpool á Anfield
Mynd: EPA
Það gengur lítið hjá Liverpool í deildinni
Það gengur lítið hjá Liverpool í deildinni
Mynd: EPA
Liverpool 1 - 2 Leeds
0-1 Rodrigo ('4 )
1-1 Mohamed Salah ('14 )
1-2 Crysencio Summerville ('90 )

Leeds United lagði Liverpool að velli, 2-1, í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í kvöld en það var hollenski leikmaðurinn Crysencio Summerville sem gerði sigurmarkið undir lok leiks.

Gestirnir voru nálægt því að fá á sig mark strax í upphafi leiks eftir smá misskilning í vörninni. Mohamed Salah reyndi að stýra boltanum í netið en Pascal Struijk náði að bjarga í tæka tíð.

Stuttu síðar komst Leeds yfir. Joe Gomez átti ævintýralega slaka sendingu til baka á Alisson, boltinn rann framhjá markverðinum og fyrir Rodrigo sem skoraði af stuttu færi.

Mohamed Salah náði að jafna metin tíu mínútum síðar eftir fyrirgjöf Andy Robertson og staðan jöfn.

Brenden Aaronson gat komið Leeds yfir á 21. mínútu en skot hans hafnaði í þverslá.

Úrúgvæski framherjinn Darwin Nunez hefur verið gagnrýndur fyrir færanýtingu sína hjá Liverpool. Hann fékk dauðafæri á 32. mínútu eftir laglega sendingu Trent Alexander-Arnold en tókst einhvern veginn að klúðra málunum er hann var kominn einn gegn Ilian Meslier og fór færið forgörðum.

Meslier átti stórkostlega vörslu frá Nunez þegar tuttugu mínútur voru eftir. Nunez var með boltann fyrir utan teiginn og lét vaða í fjærhornið en Meslier bauð upp á sjónvarpsvörslu og hélt Leeds í leiknum.

Franski markvörðurinn varði aftur frá Nunez stuttu síðar og kom þá Leeds til bjargar undir lok venjulegs leiktíma er hann varði skalla Roberto Firmino.

Leeds skoraði sigurmarkið svo nokkrum sekúndum síðar. Wilfried Gnonto fann Patrick Bamford sem lagði boltann fyrir Crysencio Summerville og náði hann góðu skoti sem endaði með marki.

Lokatölur á Anfield, 2-1, Leeds í vil. Þetta er fyrsti sigur Leeds á Anfield í 21 ár og það sem meira er þá var þetta fyrsta tap Virgil van Dijk á Anfield síðan hann kom til félagsins frá Southampton. Liverpool er í 9. sæti með 16 stig en Leeds í 15. sæti með 12 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner