lau 29. október 2022 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Kane efstur á óskalista FC Bayern
Powerade
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA

BBC tekur saman slúðurpakka dagsins eins og vanalega og er úr nógu að taka í dag þegar aðeins þrjár vikur eru í upphafsflautið á HM og tveir mánuðir í að janúarglugginn opni.



Harry Kane, 29, er búinn að setja samningsviðræður við Tottenham á bið þar til eftir HM. Tottenham vill skrifa undir við Kane og tvo liðsfélaga hans, danska miðjumanninn Pierre-Emile Höjbjerg, 27, og enska varnarmanninn Eric Dier, 28. Kane á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Spurs. (Evening Standard)

Kane er efstur á óskalista FC Bayern München sem saknar Robert Lewandowski í fremstu víglínu. Eric Maxim Choupo-Moting hefur verið funheitur í undanförnum leikjum og er kominn með sex mörk og tvær stoðsendingar úr síðustu fjórum. (Express)

Juventus vill ráða Antonio Conte sem þjálfara sinn fyrir næsta tímabil eftir slaka byrjun undir stjórn Massimiliano Allegri. Conte verður samningslaus eftir tímabilið en Tottenham hefur möguleika á að virkja ákvæði til að framlengja samninginn um eitt ár. (Gazzetta dello Sport)

Newcastle United hefur áhuga á brasilíska táningnum Eguinaldo sem er 18 ára gamall og spilar með Vasco da Gama í B-deildinni. Hann er falur fyrir 26 milljónir punda. (Chronicle)

Eddie Howe neitar því að Newcastle sé í samningsviðræðum við miðjumanninn fjölhæfa Miguel Almiron, 28 ára landsliðsmann Paragvæ. Félagið mun finna betri tíma til að fara í viðræður heldur í miðri leikjatörn í ensku úrvalsdeildinni. (Sky Sports)

Arthur Melo, 26, verður á láni hjá Liverpool út tímabilið þrátt fyrir að hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum á læri. Arthur hefur aðeins spilað 13 mínútur frá komu sinni til Liverpool í september. (Mirror)

Newcastle United er reiðubúið til að bjóða miðjumanni sínum Bruno Guimaraes, 24, nýjan samning með 200 þúsund pund í vikulaun. Chelsea og Real Madrid hafa áhuga á miðjumanninum en Newcastle vill halda honum innan sinna raða. (Evening Standard)

Valencia og Inter hafa áhuga á Donny van de Beek, 25 ára miðjumanni Manchester United, og gætu fengið hann lánaðan í janúar. (Todofichajes)

Man Utd er í viðræðum við hinn bráðefnilega Alejandro Garnacho, 18 ára kantmann, um nýjan langtímasamning. (Fabrizio Romano)

David de Gea, 31 árs markvörður Man Utd, fer ekki með spænska landsliðinu á HM. Hann var ekki valinn í 55-manna úrtakshóp Luis Enrique landsliðsþjálfara þar sem hann er ekki nægilega góður að spila fótbolta með fótunum. (Mail)

Ítalski landsliðsmaðurinn Jorginho, 30 ára, ætlar að bíða með að taka ákvörðun varðandi framtíðina. Jorginho rennur út á samningi næsta sumar og eru Barcelona og Juventus meðal áhugasamra félaga. (Sport)

Arsenal, Newcastle og West Ham hafa áhuga á danska kantmanninum Gustav Isaksen sem er 21 árs gamall og leikur fyrir Midtjylland. Ítalíumeistarar AC Milan hafa einnig áhuga. (Calciomercato)

Leeds ætlar að endurvekja áhuga sinn á Cody Gakpo, 23 ára kantmanni PSV Eindhoven og hollenska landsliðsins. Gakpo var í lykilhlutverki er PSV lagði Arsenal að velli í Evrópudeildinni í fyrradag. (Express)

Craig Dawson, 32 ára miðvörður West Ham, vill yfirgefa félagið í janúar eftir að hafa misst byrjunarliðssætið sitt. (Football Insider)

Barcelona, PSG og Real Madrid eru öll með í kapphlaupinu um brasilíska framherjann Endrick. Endrick er aðeins 16 ára gamall og leikur með Palmeiras í heimalandinu en félagið er talið vilja minnst 60 milljónir evra fyrir. (Sport)

Brighton býst við að klára félagsskipti Facundo Buonanotte á næstu vikum. Buonanotte er 17 ára miðjumaður frá Argentínu sem er á mála hjá Rosario Central. (Fabrizio Romano)


Athugasemdir
banner
banner
banner