Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 29. desember 2014 12:05
Fótbolti.net
Hvar liggur vandamál Liverpool?
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
Sturridge hefur verið sárt saknað.
Sturridge hefur verið sárt saknað.
Mynd: Getty Images
Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers.
Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers.
Mynd: Getty Images
Spilamennska Liverpool hefur ekki verið sannfærandi.
Spilamennska Liverpool hefur ekki verið sannfærandi.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Jóhannes Sturluson, sendi inn spurningu fyrir jólatörnina varðandi vandamál Liverpool en eftir frábæra frammistöðu síðasta vetur hefur liðið alls ekki verið sannfærandi á þessu tímabili.

Magnús Þór Jónsson á kop.is sá um að svara spurningunn.

Hvar haldið þið að vandamál Liverpool liggi?
Erfitt er að setja eitthvað eitt atriði sem vanda Liverpool í vetur, ef svo væri þá væri líklega búið að leysa hann allavega á þann hátt að skárra væri ástandið. Hér nefnum við þrjú atriði og í mikilvægiröð, þ.e. stærsta vandann fyrst.

1) SAS-gengið horfið.
Í fyrra átti Liverpool heitasta framherjapar Englands, mögulega allrar Evrópu. Það að missa Luis Suarez (31 mark – 13 stoðsendingar) og Daniel Sturridge (27 mörk – 8 stoðsendingar) út úr leik liðsins er auðvitað augljós vandi fyrir öll lið, hvað þá lið eins og Liverpool sem ekki var með mikla breidd í leikmannahópnum í framherjastöðum. 58 mörk og 21 stoðsending. Hver vill redda því takk? Auðvitað er Sturridge ekki horfinn í burt en þegar hann meiddist var hann búinn að sigra 2 leiki af 3 fyrir félagið, sem segir að mögulega væri staðan önnur ef hann væri heill.

En þetta snýst ekki bara um mörkin sem þessir tveir skoruðu. Báðir öskufljótir og mjög duglegir að pressa, sem þýddi það að liðið leyfði sér að spila 4-4-2 kerfi með hápressu með varnarlínuna hátt. Ógnin af þeim tveim og síðan Sterling þar rétt fyrir aftan var slík að lið lögðust yfirleitt aftarlega á völlinn (eða voru rekin þangað) og það gaf miðjumönnum gott svæði til að vinna á, sérstaklega Gerrard sem að gat þá leyst sína leikstjórnendastöðu í miklum friði.

Við brotthvarf þessara tveggja var breytt um leikkerfi og pressan aldrei náð sér á strik. Reynt var að fylla skarð Suarez með Benzema sem neitaði strax að fara til Englands og síðan valdi Alexis Sanchez að fara til Arsenal þrátt fyrir að sagan segi að tilboð Liverpool hafi verið honum betra. Rétt fyrir lok gluggans var ákveðið að taka séns með að kaupa Balotelli en hann átti að spila með Sturridge en í staðinn fyrir hann. Skoðum kaupin neðar.

En það að missa aðkomu að 79 mörkum skaðar öll lið í heiminum.

2) Frammistöður leikmanna
Þegar að slíkur missir sem lýst er að ofan er gríðarlega mikilvægt að þú fáir meira framlag frá þeim leikmönnum sem eftir verða. Þú þarft að sjá leikmenn þora að taka áhættur sóknarlega og vinna varnarleikinn ákveðnar. Það hefur ekki gengið eftir. Mikið hefur verið rætt um leikmenn eins og Dejan Lovren, Simon Mignolet og Mario Balotelli en það er í raun erfitt að finna leikmenn sem ekki hafa gert sig seka um slæm mistök, ekki nýtt dauðafæri eða gert eitthvað sem hefur gefið mark. Alberto Moreno, Rickie Lambert, Martin Skrtel og Phil Coutinho hafa allir gerst sekir um slík mistök og á einhverjum tímapunkti. Þess utan hafa leikmenn eins og Gerrard, Henderson og Johnson alls ekki náð að sýna sitt betra andlit.

Svo að þá eru nú ekki margir eftir, í raun kannski bara Sterling og Kolo Toure sem að hafa verið á einhverju róli. Já takk...við erum að tala um Kolo Toure sem einn af betri leikmönnunum. Takk fyrir það!

3) Reynsluleysi í þjálfarateymi og yfirstjórn.
Þegar Kenny Dalglish var rekinn komu eigendurnir fram og tilkynntu að þeir ætluðu sér að ráða ungan þjálfara sem ynni sigra á æfingavellinum í samræmi við „nútíma þjálfunaraðferðir“.

Aðeins var talað við tvo, stjórana hjá Wigan og Swansea. Sem ekki var nú endilega það sem að harðir stuðningsmenn Liverpool vildu, heldur stærri nöfn. Eftir 400 blaðsíðna skýrslu um sína hugmynda-fræði var Brendan Rodgers ráðinn til starfsins og talað um að hann fengi nú tíma til að byggja upp nýtt lið.

Hann tók með sér aðstoðarmanninn sinn, Colin Pascoe og svo réð hann þriðja þjálfarann inn í teymið og ákvað að sækja sér einhvern með innanbúðarþekkingu. Talið var víst að hann réði Pep Segura sem var þá yfirmaður akademíunnar og reynslumikill þjálfari í Evrópu, en það gerði hann ekki og í staðinn réð hann Mike Marsh, fyrrum leikmann liðsins sem hafði þjálfað yngri liðin í þrjú ár.

Allir þessir menn eru mikið lærðir í þjálffræðum og mæta allir í stuttbuxunum á æfingasvæðið. Þeir hafa verið duglegir að búa til leikmenn úr yngri liðunum og í fyrra höfðu þeir kjark í aggressívt leikkerfi.

En kannski má rifja uppleggið þeirra gegn Chelsea í 36.umferð í vor – en þá ákváðu þeir að sækja til sigurs þegar að jafntefli hefði dugað þeim til að vera áfram í ökumannssætinu. Haldið þið t.d. að José Mourinho hefði gert það? Nei, hélt ekki. Ég er viss um að næst þegar slík staða er uppi þá munu þeir breyta á annan hátt.

Í haust var svo ljóst að ný keppni bættist við, Meistaradeildin. Ég held að óhætt sé að segja að það hafi komið vel í ljós að þar var stjórinn ekki á heimavelli, í raun framhald af Evrópudeildinni sem hann höndlaði ekki vel á fyrsta vetri sínum.

Þegar að yfirstjórn félagsins tók þá ákvörðun að ráða reynslulítinn ungan stjóra og síðan búa til hina alræmdu „leikmannakaupanefnd“ þá vorum við nokkrir sem bentum á að þá yrðu menn að hlusta eftir því og átta sig á því að reynsla skapast mest af mistökum og því hvernig á að bregðast við því.

Rodgers hefur verið seinn til að þora að breyta uppleggi sínu en þó virðist það að hafa fallið út úr Meistaradeildinni kennt honum það að hann verði að fara aðrar leiðir en að draga liðið aftar á völlinn þegar í hópinn vantar framherja af hæsta gæðaflokki.

Leikmannanefndin verður að læra af sumrinu (og fleiri leikmannagluggum) þar sem þeir vissulega keyptu leikmenn fyrir breiddina og á góðum aldri en voru of seinir til eða ekki nógu ákveðnir við að ná í leikmann sem var tilbúinn að skila 30 mörkum plús eða hágæða markmann. Það var svo augljós þörf sem ekki var uppfyllt þó auðvitað menn hefðu vonast eftir einhverju meira frá Balotelli.

Algengt er þó að þegar menn horfa á mistök þá sé einn maður gerður ábyrgur, stjórinn. Það er þó ekki lausn á þeim vandamálum sem hér er lýst.

Verklag eigenda Liverpool og ákvarðanir í mannaráðningamálum og leikmannakaupum arga á þolinmæði í uppbyggingu félags sem var nokkrar klukkustundir frá gjaldþroti þegar þeir eignuðust það. En er þolinmæði til í nútímafótbolta... þó að allir viti að Ferguson þurfti 7 ár til að búa United-liðið sitt til og að Shankly, goðsögnin sjálf, átti líka 7 mögur ár án titla.

Það er svo önnur saga....og verður að koma í ljós hvort að Rodgers og þjálfarateymið lifi af veturinn ef ekki lagast gengið!
Athugasemdir
banner
banner
banner