fös 29. desember 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Sigurvegari ársins 2017
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Holland vann EM kvenna.
Holland vann EM kvenna.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltaárinu árið 2017. fer nú senn að ljúka og af því tilefni fékk Fótbolti.net nokkra álitsgjafa til að gera upp árið. Álitsgjöfunum er skipt upp í flokka og hér að neðan má sjá val á sigurvegara ársins 2017.



Kjartan Atli Kjartansson, 365 miðlar

Innlent: Sigurvegari ársins hér innanlands er vafalaust Heimir Hallgrímsson, sem fulltrúi íslenska karlalandsliðsins. Heimir tók margar stórar ákvarðanir sem gengu nánast allar upp og stýrði liðinu til sigurs í þessum erfiða undanriðli fyrir HM 2018.

Stundum finnst mér eins og hinn góði árangur landsliðsins undanfarið hafi deyft þjóðina, manni líður eins og meirihlutinn átti sig ekki á hversu stórfenglegt það er að komast á stærsta svið íþróttanna, heimsmeistaramótið í vinsælustu íþróttagrein heims.

Aðstæðurnar sem Heimir gekk inn í voru ekki auðveldar. Hann tók einn við liðinu og þurfti hálfpartinn að sanna sig aftur. Það gerði hann með stæl og er sannkallaður sigurvegari.

Erlent: Sigurvegari ársins í útlöndum er að mínu mati Neymar. Rapparinn Mos Def sagði í einu laginu sem hann gerði: „If you got a joint bubblin', then get money now“ (Ef við snörum þessu yfir á íslensku mætti segja að ef maður á vinsælt lag, þá á maður að ná í peninginn strax og þá nóg af honum).

Neymar skrifaði undir svakalegan samning: 5,5 milljarða fyrir skatt, 3,7 milljarða eftir að búið er að greiða gjöldin af summunni. Ofan á allt hitt. Miklu meira en milljón á tímann, ef miðað er við átta tíma vinnudag.

Þetta eru alvöru upphæðir. Neymar skráir sig inn á heimabankann sinn í árslok og skellihlær, hafandi skorað 17 mörk í 20 leikjum fyrir PSG síðan hann skipti frá Barcelona í ágúst.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður

Innlent: Íslenska karlalandsliðið. Ég hélt það yrði erfitt að toppa stórkostlegt EM hjá þeim í fyrra en þeir hafa svo sannarlega gert það með því að tryggja sér á HM. Einn stærsti íþróttaáfangi í sögu Íslendinga myndi ég segja.

Erlent: Hollenska kvennalandsliðið. Komu mörgum á óvart og unnum EM á heimavelli. Áttu stórkostlegt mót, flestir bjuggust við sigri Þjóðverja eða Frakka en Holland vann verðskuldað og fengu einnig útnefndan besta leikmann í heimi, Lieke Martens.

Axel Óskar Andrésson, U21 árs landsliðsmaður

Innlent: Það eru tvö sem koma til greina hjá mér. Það eru þau Gylfi Sigurðsson og Sara Björk Gunnarsdóttir. Að mínu mati er það Sara sem að stendur upp úr. Að vera valin í 19. Sæti yfir bestu fótboltakonur í evrópu, vera í toppliði í Þýskalandi og leiða Ísland á EM í sumar sem fyrirliði. Ég myndi segja að hún væri með allt á hreinu þetta árið.

Erlent: Þurfti ekki að hugsa mig um tvisvar. Cristiano Ronaldo. Maðurinn er ósigrandi. Vann spænsku deildina, Meistaradeildina og endaði árið á Ballon D’or. Ekki slæmt.

Sjá einnig:
Karakter ársins 2017
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner