Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mán 30. janúar 2023 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Telur Hákon vera „einn þann áhugaverðasta" í sögu FCK
Hákon er samningsbundinn FCK til 2026.
Hákon er samningsbundinn FCK til 2026.
Mynd: FCK

Jacob Neestrup, þjálfari FC Kaupmannahafnar, svaraði spurningum varðandi leikmann sinn Hákon Arnar Haraldsson sem er eftirsóttur af RB Salzburg.


Kaupmannahöfn hefur hafnað tveimur tilboðum frá Salzburg sem hljóða upp á 8 og 10 milljónir evra fyrir Hákon. Neestrup er gríðarlega hrifinn af Hákoni og útskýrði hvers vegna.

„Ég tel Hákon vera einn áhugaverðasta leikmann í sögu FC Kaupmannahafnar. Ég tel hann vera gasalega vanmetinn leikmann því hann býr yfir ótrúlegum gæðum," sagði Neestrup.

„Hann er ótrúlega góður að pressa, hann er svo góður að við eigum erfitt með að skilja gögnin og hlaupatölurnar þegar við förum í gegnum það. Hann sprengdi til dæmis algjörlega alla skala með frammistöðunni í heimaleiknum gegn Dortmund. Fyrir utan allt þetta býr hann yfir frábærri tækni og mikilli útsjónasemi. 

„Hans stærsti veikleiki er þegar hann er ekki rétt stemmdur, þá dettur hann sífellt neðar á völlinn og hverfur. Við viljum hjálpa honum að bæta þetta. Hann er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir okkur og við viljum ekki missa hann."

Hákon er aðeins 19 ára gamall en á nú þegar 7 A-landsleiki að baki fyrir Ísland, auk þess að vera mikilvægur hlekkur í liði Danmerkurmeistara Kaupmannahafnar. Eins og staðan er í dag er FCK í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig eftir 17 umferðir, átta stigum eftir toppliði Nordsjælland.

Hákon er sóknarsinnaður miðjumaður að upplagi en getur einnig leikið úti á kanti eða í fremstu víglínu. Hann hefur verið mikið úti á hægri kanti hjá FCK á tímabilinu en félagið er nýbúið að krækja í tvo aðra hægri kantmenn sem munu gera tilkall til byrjunarliðssætis.

Diogo Goncalves er kominn úr röðum Benfica og Jordan Larsson einnig á láni frá Schalke.


Athugasemdir
banner
banner
banner