banner
   þri 30. mars 2021 17:59
Brynjar Ingi Erluson
Undankeppni HM: Mitrovic sá um Aserbaídsjan - Kýpur vann
Aleksandar Mitrovic skoraði bæði mörk Serbíu
Aleksandar Mitrovic skoraði bæði mörk Serbíu
Mynd: Getty Images
Serbía og Kýpur unnu góða sigra í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld en Aleksandar Mitrovic reyndist hetja Serba er hann gerði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Aserbaídsjan

Leikirnir hjá Serbum hafa verið ansi jafnir í riðlakeppninni til þessa en leikurinn í kvöld var sérstaklega mikilvægur. Serbar mættu botnliði Aserbaídsjan og tók það aðeins sextán mínútur fyrir markahæsta mann landsliðsins frá upphafi, Aleksandar Mitrovic, að koma gestunum yfir.

Heimamenn fengu vítaspyrnu á 59. mínútu sem Emin Makhmudov skoraði úr. Þegar níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma tók Mitrovic málin í sínar hendur. Hann fékk boltann skoppandi fyrir utan teiginn og tók hann í fyrsta, niðri í hægra bornið. Glæsilegt mark.

Þetta er annar sigur Serbíu í A-riðli en liðið er með 7 stig eftir fyrstu þrjá leikina. Aserbaídsjan er án stiga.

Í H-riðli tókst Kýpur að vinna Slóveníu 1-0. Ioannis Pittas skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks og reyndust það lokatölur.

Kýpur er með 4 stig eftir þrjá leiki og situr liðið í 2. sæti riðilsins en Slóvenar eru með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Aserbaídsjan 1 - 2 Serbía
0-1 Aleksandar Mitrovic ('16 )
1-1 Emin Makhmudov ('59 , víti)
1-2 Aleksandar Mitrovic ('81 )

Kýpur 1 - 0 Slóvenía
1-0 Ioannis Pittas ('42 )
Athugasemdir
banner
banner