Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 30. apríl 2022 21:18
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Umdeilt sigurmark og tvö rauð spjöld í Reykjavíkurslag
Valur vann KR á Origo-vellinum
Valur vann KR á Origo-vellinum
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
KR-ingar hópuðust að Helga Mikael eftir leikinn
KR-ingar hópuðust að Helga Mikael eftir leikinn
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Valur 2 - 1 KR
0-1 Kjartan Henry Finnbogason ('18 )
1-1 Patrick Pedersen ('45 )
2-1 Jesper Juelsgård ('69 )
Lestu um leikinn

Valsmenn fögnuðu í kvöld 2-1 sigri á KR-ingum í Reykjavíkurslag af bestu gerð þegar liðin mættust í þriðju umferð Bestu deildarinnar á Origo-vellinum. Aðdragandinn að sigurmarki Vals þótti afar umdeildur.

Það var sótt á báða bóga en fyrsta dauðafæri leiksins endaði með marki. Kjartan Henry Finnbogason, snéri aftur úr leikbanni og skoraði eftir átján mínútur.

Kennie Chopart átti fyrirgjöf sem Kjartan stýrði í netið og staðan 1-0 fyrir KR.

Patrick Pedersen kom sér í dauðafæri á 34. mínútu eftir að Aron Jóhannsson þræddi boltann inn fyrir. Beitir Ólafsson gerði vel í markinu hljóp út og náði snertingu á boltann og kom í veg fyrir mark.

Það var að færast hiti í leikinn undir lok fyrri hálfleiks. Sigurður Bjartur Hallsson hafði komið inná fyrir Atla Sigurjónsson um miðjan fyrri hálfleikinn. Hann átti skot sem Guy Smit varði með löppunum. Smit handsamaði síðan boltann og hljóp síðan á Kjartan Henry sem stóð fyrir honum.

Undir lok fyrri hálfleiksins jöfnuðu Valsarar. Birkir Már Sævarsson með frábæra sendingu á Pedersen sem stýrði boltanum með hausnum í nærhornið. Staðan 1-1 í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleiks fékk Chopart þungt höfuðhögg eftir samstuð við Guðmund Andra Tryggvason og þurfti að fara af velli á sjúkrabörum og kom Pontus Lindgren inn í hans stað.

Nokkrum mínútum síðar voru Valsarar nálægt því að taka forystuna er Guðmundur Andri átti skalla sem var á leið í netið en Ægir Jarl Jónasson bjargaði á marklínu.

Þegar klukkutími var eftir kom Pedersen sér í dauðafæri. Ágúst Eðvald Hlynsson átti skot sem fór fyrir lappirnar á Pedersen, hann komst einn á móti Beiti sem varði. Pedersen fékk boltann aftur og reyndi bakfallsspyrnu en rétt framhjá markinu.

Það ætlaði allt um koll að keyra sex mínútum síðar. Theodór Elmar var með boltann við miðlínuna er Valsarar náðu boltanum af honum og keyrðu í sókn. Ægir braut á Pedersen fyrir utan teig og skoraði Jesper Juelsgård úr aukaspyrnunni en KR-ingar voru brjálaðir yfir markinu.

Þeir töldu Valsara hafa brotið á Elmari í aðdragandanum en ekkert dæmt. Eftir mikil mótmæli frá KR-ingum hélt leikurinn áfram.

Þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kastaði Smit boltanum viljandi útaf. KR-ingar gáfu boltann ekki til baka og færðist enn meiri hiti í leikinn. Haukur Páll Sigurðsson axlaði Elmar og allt varð vitlaust.

Sjö mínútum var bætt við venjulegan leiktíma eftir allar tafirnar í síðari hálfleiknum og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar fékk Grétar að líta rauða spjaldið eftir hann var dæmdur brotlegur eftir návígi við Hauk Pál. Hann trylltist í kjölfarið og æddi að Sebastian Hedlund áður en hann fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Haraldur Árni Hróðmarsson, aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar, var einnig rekinn upp í stúku skömmu síðar.

Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, flautaði leikinn af og lokatölur 2-1 fyrir Val. Leikmenn KR hópuðust upp að Helga eftir leikinn og vildu ræða málin eftir mikinn hitaleik.

Valur vinnur þriðja leik sinn í deildinni og fer á toppinn. KR er á meðan með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina. Viðtaöl og skýrsla er væntanlega á vefinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner