Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 30. maí 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kante í forystunni um Ballon d'Or þegar árið er hálfnað
Kante með Meistaradeildarbikarinn.
Kante með Meistaradeildarbikarinn.
Mynd: EPA
N'Golo Kante var magnaður í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær, þegar Chelsea lagði Manchester City að velli í Porto.

Hann var maður leiksins, rétt eins og hann var í báðum undanúrslitarleikjunum gegn Real Madrid.

Fyrir níu árum síðan var hann að spila í þriðju efstu deild í Frakklandi. Leicester keypti hann frá Caen árið 2015 og á fyrsta tímabili sínu í Englandi var hann einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar þegar Leicester vann deildina gríðarlega óvænt.

Hann var í kjölfarið keyptur til Chelsea þar sem hann hefur heilt yfir verið mjög flottur. Hann er búinn að finna taktinn undir stjórn Thomas Tuchel.

Eftir leikinn í gær hefur sú umræða farið af stað að Kante eigi að vinna Ballon d'Or, verðlaunin sem eru veitt besta fótboltamanni- og konu heims ár hvert.

Kante hefur aldrei verið ofar í áttunda sæti, árið 2017. Euan McTear, sem skrifar fyrir Marca á Spáni, telur að Kante sé í forystu þegar árið er hálfnað.

„Lionel Messi hefur verið stórkostlegur, Kylian Mbappe átti góð kvöld í Meistaradeildinni og Robert Lewandowski raðar áfram inn mörkum. Enginn annar getur hins vegar sagt að hann hafi verið maður leiksins í þremur mikilvægustu leikjunum í Meistaradeildinni," skrifar McTear.

Það er Evrópumót framundan og það mun líklega segja mikið til um hver tekur verðlaunin. Kante leikur þar með Frakklandi sem er líklegt til afreka.

Þegar 2021 er hálfnað, þá er Kante á toppi listans að mati McTear.


Athugasemdir
banner
banner