Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 30. maí 2021 19:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Milos orðaður við endurkomu til Svíþjóðar: Er ekki David Copperfield
Milos Milojevic.
Milos Milojevic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos Milojevic var að klára sitt fyrsta heila tímabil sem aðstoðarþjálfari Rauðu stjörnunnar í Serbíu.

Milos, sem er fyrrum þjálfari Víkings Reykjavík og Breiðablik, er í þjálfarateymi Dejan Stankovic.

Stankovic þekkja margir fótboltaáhugamenn. Hann vann ítölsku deildina sex sinnum á sínum ferli sem leikmaður. Einn af þeim vann hann með Lazio en þar lék hann á árunum 1998-2004 en fimm með Inter þar sem hann lék frá 2004-2013. Þá vann hann einnig Meistaradeild Evrópu hjá Inter árið 2010.

Rauða stjarnan vann meistaratitilinn í Serbíu og komst í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar sem liðið tapaði gegn AC Milan. Liðið spilaði frábærlega og náði mjög góðum úrslitum.

Milos þjálfaði hjá Mjällby í Svíþjóð áður en hann fór til Serbíu. Hann náði þar virkilega flottum árangri. Hann segir í samtali við sænska fjölmiðla að hann vilji gerast aðalþjálfari aftur. Hann er áfram á samningi samt í Serbíu.

„Ég vil vera hjá félagi með mikinn metnað. Ef verkefnið er áhugavert þá er mér sama hversu stórt eða lítið félagið er. Ég mun leggja mikið á mig, en ég er ekki David Copperfield (töframaður)," segir Milos við Fotbollskanalen.

Hann segir að félög í Evrópu hafi heyrt í sér en getur ekki talað um það í hvaða landi það var. Örebro og Häcken í Svíþjóð eru að leita sér að nýjum þjálfara en fjölskylda Milos býr í Svíþjóð. Hann hefur einnig verið orðaður við nýkrýnda bikarmeistara Hammarby. Stefan Billborn er sagður valtur í sessi.
Athugasemdir
banner