lau 30. júní 2018 15:53
Bjarni Þórarinn Hallfreðsson
HM: Frakkland í 8-liða úrslit eftir sigur á Argentínu í frábærum leik
Mbappe var stórkostlegur í dag
Mbappe var stórkostlegur í dag
Mynd: Getty Images
Frakkland 4 - 2 Argentína
1-0 Antoine Griezmann ('13 , víti)
1-1 Angel Di Maria ('41)
1-2 Gabriel Mercado ('48)
2-2 Benjamin Pavard ('57)
3-2 Kylian Mbappe ('64)
4-2 Kylian Mbappe ('68)
4-3 Sergio Aguero ('93)

Frakkland varð í dag fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi eftir sigur á Argentínu í frábærum leik.

Eftir rúmlega tíu mínútna leik fékk Kylian Mbappe boltann á sínum eigin vallarhelmingi og tók á rás og sprengdi upp vörn Argentínu. Marcos Rojo braut þá á honum inn í vítateig og vítaspyrna dæmd.

Antoine Griezmann skoraði úr vítaspyrnunni og kom Frökkum yfir.

Argentína var meira með boltann í fyrri hálfleik en sköpuðu sér lítið af færum. Frakkar voru hins vegar hættulegri fram á við og þar var Mbappe fremstur í flokki.

Undir lok fyrri hálfleiks jafnaði Angel Di Maria leikinn fyrir Argentínu með skoti af löngu færi. Stórkostlegt mark hjá frábærum leikmanni. 1-1 í hálfleik.

Argentína komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og kom Gabriel Mercado þeim bláu og hvítu yfir á 48. mínútu. Lionel Messi átti þá skot á mark Frakka sem átti viðkomu í Mercado og inn fór boltinn.

Tæpum tíu mínútum síðar jafnaði Benjamin Pavard metinn fyrir Frakka með stórkostlegu skoti fyrir utan teig.

En þá var komið að áðurnefndum Kylian Mbappe sem var frábær í leiknum.

Mbappe skoraði á 64. mínútu og kom Frökkum aftur yfir og skömmu síðar bætti hann við öðru marki sínu og fjórða marki Frakka.

Sergio Aguero klóraði í bakkann fyrir Argentínu í uppbótartíma eftir góða sendingu frá Lionel Messi en það var of lítið og of seint fyrir Argentínu og sigur Frakka staðreynd. Argentína er því dottið úr leik.

Frakkland er því komið í 8-liða úrslit HM og mætir annað hvort Úrúgvæ eða Portúgal en það ræðst í kvöld hvort liðið mætir Frakklandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner