Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. ágúst 2021 13:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Íslensk knattspyrna og þolendur eiga betra skilið"
Mótmæli fyrir landsleikinn á fimmtudag
Það verður mótmælt á fimmtudag og má gera ráð fyrir því að það verði fyrir utan Laugardalsvöll.
Það verður mótmælt á fimmtudag og má gera ráð fyrir því að það verði fyrir utan Laugardalsvöll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Forvarnarhóparnir Bleiki fíllinn og Öfgar hafa ákveðið að boða til friðsamlegra mótmæla fyrir landsleik Íslands og Rúmeníu á fimmtudag. Gera má ráð fyrir því að mótmælin verði fyrir utan Laugardalsvöll, þó það komi ekki fram.

Hóparnir segja það ekki nóg að Guðni Bergsson segi einn af sér. Guðni lét af störfum sem formaður KSÍ í gær í kjölfarið á mikilli umræðu um starfshætti hjá Knattspyrnusambandinu í tengslum við ofbeldismál landsliðsmanna.

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram í fréttatíma RÚV á föstudagskvöld og sagði þar frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns sem faðir hennar tilkynnti til KSÍ.

Guðni sagði í viðtali við Kastljós á fimmtudag að engar tilkynningar eða ábendingar hefðu borist frá því hann tók við formennsku en greindi svo frá því í fréttatímanum á föstudag að hann hafi farið með rangt mál.

KSÍ fundaði mikið um helgina og var það niðurstaðan að Guðni myndi stíga frá borði, en stjórn KSÍ myndi sitja áfram. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri, situr einnig áfram eins og er. Hún fékk tölvupóst frá föður Þórhildar, líkt og Guðni.

Þetta þykir Bleika fílnum og Öfgum ekki boðlegt og því verða mótmæli á fimmtudag.

Tilkynningin í heild sinni
Frá forvarnarhópnum Bleika fílnum og Öfgum.

Vegna yfirlýsingar KSÍ í gær er ljóst að það á að láta einn mann axla ábyrgð á gjörðum KSÍ og halda að það nægi. Við sem þjóð sjáum í gegnum þann gjörning.

Spilling sem þessi viðgengst ekki vegna eins manns auk þess sem þessi eitraða menning hefur verið við lýði mun lengur en Guðni hefur starfað innan KSÍ.

Klara Bjartmarz fékk hið umdeilda bréf, það eru til sannanir fyrir því. Samt neitar hún fyrir það. Hún segist ekki hafa horft á Guðna í Kastljósi, hver trúir því? Í alvörunni Klara, ef allt þetta gat viðgengist án þinnar vitundar, þá hlýturðu að sjá að þú ert ekki starfi þínu vaxin. Stjórnin verður að víkja, það sér það hver sál.

Að auki eru til heimildir fyrir því að annar varaformaður KSÍ var í gleðskap með kvennalandsliðinu þar sem þjálfarinn gerðist sekur um ólíðandi framkomu. Henni fannst það ekki eiga erindi við aðra í stjórn KSÍ og þagði með honum. Hann var látinn fara stuttu seinna.

Það þarf að uppræta þessa eitruðu menningu. Það verður ekki gert með sömu stjórn og hefur viðhaldið henni. Íslensk knattspyrna og þolendur eiga betra skilið.

Við boðum því til friðsamlegra mótmæla næsta fimmtudag 2. september klukkan 17:00. Yfirskrift mótmælanna er „Stjórnin út“. Þið megið geta tvisvar hvar.

Sjá einnig:
ÍTF vill að framkvæmdastjóri og stjórn axli ábyrgð líka
Yfirlýsing stjórnar KSÍ - Ætla að sitja áfram fram að ársþingi
Athugasemdir
banner
banner
banner