Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 30. ágúst 2021 08:42
Elvar Geir Magnússon
Stjórn og framkvæmdastjóri ekki með traust hreyfingarinnar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri sambandsins, Klara Bjartmarz, eru ekki með traust frá fótboltahreyfingunni og aðildarfélögum KSÍ en það kom alveg skýrt fram á fundi ÍTF, hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum, í gærkvöldi.

Von er á yfirlýsingu frá ÍTF en boðað var til neyðarfundar í gærkvöldi þar sem heitar umræður sköpuðust.

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í gær en háværar raddir eru um að það þurfi að hreinsa enn frekar til hjá sambandinu og fleiri að víkja.

Klara fékk sama tölvupóst og Guðni fékk frá föður Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur þar sem tillkynnt var um ofbeldi og kynferðislega áreitni landsliðsmanns. Málið fór ekki fyrir stjórn KSÍ.

Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hún gerði sér alveg grein fyrir því að margir væru reiðir yfir þeirri ákvörðun stjórnarinnar að stíga ekki frá. Hún hafi sjálf íhugað að segja af sér en stjórnin hafi ákveðið að sitja áfram til að halda KSÍ starfhæfu.

Þegar Borghildur var spurð að því hver hennar skoðun væri á því hvort framkvæmdastjóri KSÍ ætti ekki að víkja eins og formaðurinn þá vildi hún ekki svara þeirri spurningu.

Borghildur hlaut gagnrýni á síðasta ári en hún var með kvennalandsliðinu í Ungverjalandi þegar Jón Þór Hauksson, þá landsliðsþjálfari, fór yfir strikið í fögnuði. Borghildur sagði ekki frá hegðun Jóns á stjórnarfundi en hann lét svo af störfum í kjölfar málsins.

ÍTF vill að boðað verði til neyðarþings og kosið upp á nýtt í stjórn KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner