Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. desember 2019 08:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Enginn nógu hugrakkur til að valda Zlatan vonbrigðum"
Zlatan er kominn til Milan.
Zlatan er kominn til Milan.
Mynd: Getty Images
Hinn 38 ára gamli Zlatan Ibrahimovic er búinn að skrifa undir samning við AC Milan út leiktíðina. Albin Ekdal, fyrrum liðsfélagi Zlatan, telur að sóknarmaðurinn muni hjálpa liðinu mikið.

Zlatan lék með AC Milan á árunum 2010-2012 og varð hann Ítalíumeistari með félaginu. Hann skoraði þá 56 mörk í 85 leikjum með Milan.

Núna er Milan í vandræðum eins og síðustu ár. Liðið er í 11. sæti, með helminginn af stigafjölda toppliðsins og nágrannaliðsins Inter.

„Ibra, á sama hvaða aldri hann er, mun alltaf vera hjá toppfélagi og Milan, jafnvel í dag, er það," sagði Ekdal, sem spilaði með Zlatan í sænska landsliðinu. Ekdal er í dag leikmaður Sampdoria á Ítalíu.

„Meistari eins og hann er alltaf góður fyrir hvaða lið sem er, og Milan hefur gert mjög vel. Mér finnst þetta stórkostleg félagaskipti, bæði upp á það sem hann mun koma sjálfur með og líka upp á það sem hann mun fá út úr öðrum."

Ekdal hefur trú á því að Zlatan muni skipta miklu máli fyrir Milan.

„Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi þá er hann ótrúlegur atvinnumaður sem æfir alltaf af gríðarlegum krafti. Hann er alltaf í frábæru líkamlegu standi," sagði Ekdal.

„Í öðru lagi, með hann á vellinum, þá spila allir vel því það er enginn nægilega hugrakkur til að valda honum vonbrigðum. Það vill enginn valda Ibra vonbrigðum. Allir sem hafa spilað með honum vita hvað ég á við."

Zlatan gæti mætt Ekdal í fyrsta leik með Milan þann 6. janúar næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner