Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. desember 2019 16:30
Elvar Geir Magnússon
Freysi: Varrúðaráðstafanir að velja Kjartan Henry
Icelandair
Kjartan Henry í landsleik í Katar.
Kjartan Henry í landsleik í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson.
Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Kjartan Henry Finnbogason hefur ekki spilað landsleik síðan í mars 2018 en hann er í leikmannahópnum sem mætir Kanada og El Salvador í vináttuleikjum í janúar.

Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari segir að Kjartan hafi eiginleika sem gætu nýst í umspilinu í mars ef meiðsli verða hjá öðrum sóknarmönnum.

„Björn Bergmann hefur verið mikið meiddur og lítið spilað. Ef eitthvað amar að Kolla og Jóni Daða þá horfum við á að Kjartan Henry sé bestur í að leysa af þeirra hlutverk. Þar af leiðandi viljum við hafa hann með í þessu verkefni. Hann hefur verið að spila hrikalega vel og skorað mikið af mörkum. Það er ekki langtímahugsun að velja hann en það eru varúðarráðstafanir upp á umspilið í mars," segir Freyr.

Kjartan hefur verið öflugur í markaskorun fyrir Vejle í dönsku B-deildinni.

Mögulegir framtíðarmarkverðir
Í hópnum má finna unga leikmenn sem hafa verið í U21-landsliðinu. Þar á meðal eru markverðirnir Elías Rafn Ólafsson og Patrik Sigurður Gunnarsson.

„Við vildum hafa unga leikmenn í bland við leikmenn sem eru mögulega að fara að spila í umspilinu í mars. Elías og Patrik eru mögulegir framtíðarmarkverðir Íslands og gott fyrir þá að vinna með Hannesi í þessari ferð og kynnast A-landsliðs undirbúningi," segir Freyr.

Meðal ungra leikmanna í hópnum er varnarmaðurinn hávaxni Ari Leifsson sem leikur með Fylki.

„Það er töluverður fjöldi í hópnum úr U21 landsliðinu og Ari er einn af þeim. Hann hefur staðið sig vel með U21 liðinu og átti ágætis tímabil með Fylki. Við teljum að þetta sé strákur sem hafi mikið pláss fyrir bætingu og þetta var kjörið tækifæri til að taka hann með og gefa honum smjörþefinn af því að vera í kringum reynslumikla leikmenn eins og Kára, Hólmar og fleiri."
Athugasemdir
banner