banner
   mán 31. maí 2021 21:12
Aksentije Milisic
Mjólkurbikar kvenna: Breiðablik og Fylkir í 8-liða úrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveimur leikjum var að ljúka í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna. Fyrr í dag komst ÍBV áfram og í gær tryggði Þróttur R sér farseðilinn í 8-liða úrslitin.

Í Kópavogi áttust við Breiðablik og Tindastóll. Á dögunum mættust þessi lið í deildinni og þar vann Breiðablik nauman heimasigur á nýliðunum.

Heiðdís Lillýardóttir kom heimastúlkum yfir í dag og var staðan 1-0 þegar flautað var til leikhlés. Agla María Albertsdóttir tvöfaldaði forystuna á 68. mínútu en ellefu mínútum fyrir leikslok gaf hin öfluga Murielle Tiernan Tindastóli smá von með marki af stuttu færi.

Það dugði hins vegar ekki til og er Breiðablik því komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Í Árbæ mættust Fylkir og Keflavík. Hulda Hrund Arnarsdóttir kom Fylki yfir á 45. mínútu en Ntasha Moraa Anasi jafnaði metin á þeirri 55. Í kjölfarið komu hins vegar tvö mörk á þriggja mínútna kafla hjá Fylki.

Shannon Simon gerði það fyrra og Þórdís Elva Ágústdóttir það síðara. Varamaðurinn Þórdís var svo aftur á ferðinni undir lok leiks og kom stöðunni í 4-1. Bryndís Arna Níelsdóttir sá svo um að negla síðasta naglann í kistu Keflavíkur. Lokaúrslit 5-1 fyrir Fylki.

Fylkir 5 - 1 Keflavík
1-0 Hulda Hrund Arnarsdóttir ('45 )
1-1 Natasha Moraa Anasi ('55 )
2-1 Shannon Simon ('60 )
3-1 Þórdís Elva Ágústsdóttir ('63 )
4-1 Þórdís Elva Ágústdóttir ('90)
5-1 Bryndís Arna Níelsdóttir ('90)

Breiðablik 2 - 1 Tindastóll
1-0 Heiðdís Lillýardóttir ('16 )
2-0 Agla María Albertsdóttir ('68 )
2-1 Murielle Tiernan ('79 )
Athugasemdir
banner
banner
banner