Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 31. maí 2021 16:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Örn spilað allar mínúturnar - „Mættur í hádeginu þó það var frí"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliði KR, Óskar Örn Hauksson, hefur leikið allar mínúturnar í öllum sjö deildarleikjum KR til þessa. Hann skoraði tvö mörk í gær gegn ÍA þegar KR vann 3-1 sigur. Óskar verður 37 ára í haust og þétt hefur verið leikið í upphafi móts.

Fótbolti.net heyrði í Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, í dag og spurði fréttaritari hann út í Óskar.

„Hann er í toppformi og hefur alla tíð verið. Hann getur hlaupið í 90 mínútur án þess að þreytast. Hann æfir vel og hugsar vel um sig, hefur alltaf gert. Hann var mættur hérna í hádeginu þó það var frí í dag. Hann passar upp á sig og það er ástæðan af hverju hann getur spilað alla leiki og verið inn á allan tímann," sagði Rúnar.

Var eitthvað svekkelsi út í síðasta ár eða er þetta bara týpískur Óskar?

„Nei, ekkert slíkt. Hann vill vera í fótbolta og gera það af alvöru og standa sig vel. Þetta er lífið hans og hann æfir þess vegna vel. Hann er í toppstandi, er atvinnumaður og það er lykillinn að þessu. Mataræði, hvíld og að mæta á allar æfingar - það er ástæðan af hverju hann er alltaf í toppformi."

Er þetta öflug fyrirmynd fyrir þá sem eru að stíga inn í meistaraflokk?

„Algjörlega. Við erum búnir að vera heppnir að hafa átt marga svona í gegnum tíðina. Yngri strákarnir læra af þeim eldri, það er flottur kúltúr hérna varðandi þessa hluti. Það er svona sem atvinnumenn gera þetta, þeir æfa mikið til að halda sér í toppstandi og til að geta spilað þetta mikið. Óskar hefur spilað alla leikina, allar mínúturnar og staðið sig vel. Auðvitað hafa ekki allir leikirnir verið fullkomnir en hann er búinn að vinna ofboðslega vel fyrir liðið,” sagði Rúnar.

„Hvað er hægt að segja um Óskar Örn. Tvö mörk í kvöld og stöðug vinnsla. Alvöru fyrirliði sem leiðir lið sitt áfram," skrifaði Matthías Freyr Matthíasson í skýrslunni eftir leik í gær. Matthías valdi Óskar mann leiksins.
Athugasemdir
banner
banner