Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 31. maí 2021 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Vildi vera lykilmaður í liði sem spilar skemmtilegan fótbolta"
Lengjudeildin
Albert hefur farið fábærlega af stað á leiktíðinni
Albert hefur farið fábærlega af stað á leiktíðinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurmarkið á föstudag
Sigurmarkið á föstudag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert var ekki í stóru hlutverki árið 2019 hjá uppeldisfélaginu
Albert var ekki í stóru hlutverki árið 2019 hjá uppeldisfélaginu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Númer eitt, tvö og þrjú er að vinna leikina og koma okkur upp um deild.
Númer eitt, tvö og þrjú er að vinna leikina og koma okkur upp um deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Hafsteinsson, leikmaður Fram, hefur verið í liði umferðarinnar í þremur af fyrstu fjórum umferðunum í Lengjudeildinni. Hann er leikmaður 4. umferðar
en hann skoraði sigurmark Fram gegn Fjölni á föstudag.

Framarar voru svekktir og súrir síðasta haust þegar Íslandsmótinu var hætt og niðurstaðan var sú að þeir færu ekki upp um deild. Þeir eru með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir á toppi deildarinnar. Albert var til viðtals í dag og var hann spurður út í þetta.

„Ég held við gerðum ekki neitt öðruvísi en fyrir tímabilið í fyrra. Við vorum súrir með hvernig þetta endaði í fyrra en við mættum klárir í þetta tímabilið og vorum ekkert mikið að ræða þetta. Ég held að í fyrra höfum við áttað okkur á því hversu góðir við erum og eigum að vera eitt af toppliðunum," sagði Albert. Hann hefur skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjunum.

„Ég sjálfur gerði lítið öðruvísi í vetur. Ég spila aðeins framar en ég gerði stærstan hluta síðasta móts. Það eru margir góðir leikmenn í liðinu og þeir sem eru fram á við í liðinu skapa pláss fyrir hvorn annan sem hefur hjálpað. Við kunnum betur inn á hvorn annan eftir árið í fyrra."

„Sem dæmi þá er Þórir Guðjóns ekki búinn að skora en það sem hann gerir er að búa til pláss og gerir það að verkum að við hinir í kring erum að hlaupa í kringum hann og búa til færi. Það er frábær andi í hópnum og menn eru vel stemmdir komandi inn í tímabilið.”


Ertu sáttur með þína frammistöðu?

„Það er erfitt að vera ósáttur með fullt hús stiga. Ég hef aldrei verið einhver markaskorari, hugsað um frammistöðu liðsins og spilað dýpra á vellinum. Þegar mörkin koma og maður hjálpar liðinu er maður bara sáttur. Númer eitt, tvö og þrjú er að vinna leikina og koma okkur upp um deild.”

Mjög sáttur að heyra lokaflautið
Leikurinn á föstudag gegn Fjölni fór fram í leiðindaveðri.

„Ég hef spilað í 2-3 svipuðum leikjum áður. Út af rigningunni var þetta mesta vitleysa sem ég hef tekið þátt í. Helmingur af leiknum fór í að taka innköst út af vindinum og ég veit ekki af hverju leikurinn var spilaður. Eftir að Pétur flautaði af var maður mjög sáttur og hefur sjaldan verið jafn sáttur eftir leik. Það var rosalega ljúft að heyra lokaflautið eftir öll hlaupin með rigninguna í andlitið.”

Ekki rétt að fara aftur í ÍA á þessum tímapunkti
Það heyrðist sú saga í vetur að uppeldisfélagið ÍA hefði boðið í Albert í vetur. Hann var spurður út í það. Albert gekk í raðir Fram frá ÍA fyrir tímabilið 2020.

Sjá einnig:
Tel að þetta sé rétt skref á þessum tímapunkti á mínum ferli (28. nóv '19)

„Fram sagði mér að ÍA hefði spurst fyrir um mig. Framararnir sögðu við mig að þeir hefðu engan áhuga á að losa á mig og spurðu mig út í þetta. Ég var og er sammála því að á þessum tímapunkti var ekki rétt að fara í ÍA aftur. Sérstaklega eftir hvernig síðasta tímabil endaði, það kom ekki til greina að fara frá Fram núna. Ég var líka nýbúinn að fara frá ÍA, ég þurfti að breyta til og hefði jafnvel átt að gera það fyrr. Það er ótrúlega dýrmætt að kynnast nýju fólki, breyta um umhverfi og eiga það í reynslubankanum.”

Vildi vera lykilmaður í liði sem spilar skemmtilegan bolta
Það voru félög í efstu deild sem reyndu að fá Albert eftir tímabilið 2019. Af hverju tók hann skrefið til Fram, í næstefstu deild?

„Það voru einhver lið sem höfðu áhuga á að fá mig. Ég var nýkominn úr tímabili með ÍA þar sem ég kom mikið inn af bekknum. Maður eyðir mjög miklum tíma í fótboltann og það er ógeðslega súrt að vera ekki að spila alla leiki. Mér fannst ég vera kominn þangað að ég vildi fá að vera lykilmaður í liði sem spilar skemmtilegan fótbolta. Það vilja allir leikmenn spila í efstu deild en mér fannst þetta mjög spennandi eftir að hafa talað við Nonna og Steina (þjálfara) og sé alls ekki eftir því að hafa skipt.”

Má ekki festast í sama farinu
Gastu skilið að þú varst ekki í lykilhlutverki hjá ÍA?

„Ég byrja mótið (2019) á bekknum sem mér fannst ótrúlega sárt en það var lítið hægt að segja þegar við vorum á toppnum eftir fyrstu sex umferðirnar. Ég kemst inn í liðið í 6-7 leiki í röð en var svo aftur tekinn út og þá eiginlega alveg frystur. Ég spilaði einn af síðustu sex leikjunum og var ósáttur með það. Ég tók ákvörðun um að vilja breyta til. Ég hafði íhugað það árið á undan og tímabilið 2019 sannfærði mann um að það væri það réttast. Maður má ekki vera fastur í sama farinu þó þetta sé uppeldisklúbburinn manns.”

Eitthvað að lokum?

„Vonandi heldur gengið áfram hjá mér og liðinu,” sagði Albert.
Athugasemdir
banner
banner
banner