þri 31. maí 2022 20:40
Ívan Guðjón Baldursson
Timber um framtíðina: Þarf loforð um spiltíma
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Framtíð hollenska vinstri bakvarðarins Jurriën Timber er óljós eftir nýjustu ummæli hans.


Timber er lykilmaður í liði Ajax og búinn að vinna sér inn sæti í hollenska landsliðinu þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur.

Manchester United hefur mikinn áhuga á honum en Timber vill ekki skipta um félag nema hann fái loforð um nægan spiltíma.

„Auðvitað á ég enn margt eftir ólært og get haldið áfram að þróa leik minn hjá Ajax. Ég er 100% viss um það, mér líður ekki eins og ég sé búinn að læra allt sem ég get hérna," sagði Timber, en bætti svo við.

„En ég get samt alveg haldið áfram að þróa minn leik hjá öðrum félögum. Ég mun hlusta á tilfinningarnar til að taka ákvörðun, ég er ekki að fara að skipta um félag nema allt sé fullkomið hinu megin.

„Ég vil frekar vera áfram hjá Ajax heldur en að fara til stórliðs og fá skertan spiltíma. Ajax er risastórt félag sem spilar í Meistaradeildinni á hverju ári."

Ajax vill um 40 til 50 milljónir evra fyrir Timber sem er í miklu uppáhaldi hjá Erik ten Hag, nýráðnum stjóra Man Utd sem kom frá Ajax.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner