Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 31. júlí 2022 16:22
Brynjar Ingi Erluson
Mikill áhugi á Alfons - Verður hann lærisveinn Steven Gerrard?
Alfons Sampsted
Alfons Sampsted
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aston Villa, Bayer Leverkusen, Lazio og Lyon eru meðal þeirra liða sem hafa áhuga á því að fá íslenska landsliðsbakvörðinn Alfons Sampsted í sumarglugganum en tyrkneski blaðamaðurinn Ekrem Konur segir frá þessu í dag.

Alfons, sem er 24 ára gamall, hefur átt mikinn þátt í uppgangi Bodö/Glimt síðustu ár en hann kom til félagsins frá Norrköping fyrir tveimur árum.

Noregsmeistararnir komust alla leið í 8-liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu á síðasta tímabili þar sem liðið vann meðal annars Roma tvisvar í keppninni, einu sinni í riðlakeppninni er liðið kjöldró ítalska liðið 6-1 í Noregi og þá vannst 2-1 sigur í 8-liða úrslitunum.

Alfons hefur spilað feykivel með norska liðinu, en hann verður samningslaus í lok árs og hefur sagt að hann sé opinn fyrir því að skoða tilboð frá öðrum félögum.

Tyrkneski blaðamaðurinn Ekrem Konur segir frá því í dag að enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa hafi áhuga á að fá hann. Steven Gerrard er stjóri Villa en Bayer Leverkusen í Þýskalandi, Lazio á Ítalíu og Lyon í Frakklandi eru einnig áhugasöm.

Alfons á 13 A-landsleiki fyrir Íslands hönd en hann tók við hægri bakvarðarstöðunni af Birki Má Sævarssyni sem lagði landsliðsskóna á hilluna á síðasta ári.


Athugasemdir
banner
banner