banner
   fim 31. október 2019 12:00
Elvar Geir Magnússon
Endurkoma Balotelli mikil vonbrigði - Brescia þarf meira
Mario Balotelli er ekki að finna sig.
Mario Balotelli er ekki að finna sig.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Brescia fögnuðu gífurlega í sumar þegar staðfest var að Mario Balotelli væri búinn að semja við félagið. Fréttamannafundurinn þar sem hann var kynntur frestaðist um klukkutíma því almúginn myndaði umferðarteppur á götum úti þegar reynt var að berja Balotelli augum.

Innan vallarins hefur þó lítið gegnið hjá Balotelli, sem er nú 29 ára, og Brescia er í fallsæti í ítölsku A-deildinni.

Balotelli lítur á Brescia sem heimabæ sinn. Hann fæddist í Palermo en var ættleiddur til Brescia þegar hann var tveggja ára gamall. Fósturfaðir hans lést fyrr á árinu en móðirin býr enn í bænum.

Balotelli tók með sér leikbann og var ekki með í fyrstu fjórum umferðum. Í öðrum leik sínum náði hann að skora, í tapleik gegn Napoli. Það er eina mark hans til þessa og hann hefur alls ekki náð að standa undir væntingum.

„Balotelli er ekki ungur eða efnilegur lengur. Hann er fullvaxta einstaklingur sem þarf að nýta tækifærið sem Brescia er að gefa honum. Liðið er nýliði og tímabilið var alltaf að fara að vera erfitt. Balotelli var fenginn til að koma með reynslu, sigurtilfinningu og leiðtogahæfileika í lið sem hefur verið fyrir utan Serie-A í mörg ár," segir Vijay Rahaman, íþróttafréttamaður hjá Football-Italia.

„Þeir þurfa að fá meira út úr Mario. Það styttist í EM 2020 og líkurnar á því að hann snúi aftur í ítalska landsliðið eru afar litlar. Ítalía hefur tekið athyglisverðum framförum undir stjórn Roberto Mancini og hafa unnið alla leiki undankeppninnar. Það er ekki pláss fyrir Balotelli."
Athugasemdir
banner
banner
banner