þri 31. desember 2019 22:00
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola dásamar Ancelotti: Hann vinnur alltaf liðin mín
Pep Guardiola
Pep Guardiola
Mynd: Getty Images
Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola dásamaði Carlo Ancelotti, stjóra Everton, á fréttamannafundi í dag en liðin eigast við í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Ancelotti tók við Everton á dögunum en hann hefur unnið fyrstu tvo leiki sína frá því hann tók við.

Leikmenn Guardiola hafa hins vegar verið í basli og eru nú 14 stigum á eftir toppliði Liverpool.

Guardiola og Ancelotti hafa mæst áður í Meistaradeildinni er Ancelotti stýrði Real Madrid á meðan Guardiola var þjálfari Bayern München. Real Madrid vann þá báða leikina í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

„Everton verður alltaf Everton. Þetta er eitt stærsta félag Englands og sögufrægt með gæðamikla leikmenn. Þeir hafa verið í erfiðleikum með að ná í stig á þessu tímabili en gæðin eru til staðar og núna er liðið með stjóra með ótrúlega reynslu," sagði Guardiola.

„Carlo er einn gáfaðasti náunginn í bransanum og hann lætur öll lið virka, skiptir ekki máli hvaða lið það er. Ég þekki hann mjög vel og við höfum mæst nokkrum sinnum. Liðin hans vinna alltaf mín lið. Hann er alger herramaður og hefur þjálfað mörg reynslumestu lið Evrópu. Þetta er ótrúlegur listi af liðum og ástæðan er sú að hann er ótrúlegur þjálfari," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner