lau 31. desember 2022 19:31
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal fer með sjö stiga forystu inn í nýja árið
Gabriel Martinelli skoraði fjórða mark Arsenal
Gabriel Martinelli skoraði fjórða mark Arsenal
Mynd: EPA
Martin Ödegaard átti stórkostlegan leik
Martin Ödegaard átti stórkostlegan leik
Mynd: EPA
Brighton 2 - 4 Arsenal
0-1 Bukayo Saka ('2 )
0-2 Martin Odegaard ('39 )
0-3 Edward Nketiah ('47 )
1-3 Kaoru Mitoma ('65 )
1-4 Gabriel Martinelli ('71 )
2-4 Evan Ferguson ('77 )

Arsenal fer inn í árið 2023 með sjö stiga forystu á toppnum eftir að hafa unnið Brighton, 4-2, í lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar á þessu ári.

Toppliðið tók forystuna á 2. mínútu í gegnum Bukayo Saka. Gabriel Martinelli átti skot úr teignum en boltinn hafði viðkomu af varnarmanni og fyrir lappirnar á Saka sem kláraði af stuttu færi.

Það var meistarabragur á liðinu í leiknum. Martin Ödegaard var að spila sig í gegnum vörn Brighton og í eitt skiptið fíflaði hann þrjá varnarmenn er hann lagði boltanum inn á Martinelli en sá brasilíski gat ekki gert honum þann greiða að klára færið.

Ödegaard tvöfaldaði forystuna undir lok fyrri hálfleiks með góðu skoti fyrir utan teig eftir hornspyrnu. Sá norski mætti boltanum skoppandi inn í teig, skaut honum í grasið og í hægra hornið.

Enski framherjinn Eddie Nketiah er í því hlutverki að leysa Gabriel Jesus af hólmi og hefur hann gert það frábærlega. Hann skoraði þriðja mark Arsenal í upphafi síðari hálfleiks eftir hraða skyndisókn. Robert Sanhcez varði fyrirgjöf Martinelli út á Nketiah sem skoraði örugglega.

Kaoru Mitoma náði að minnka muninn fyrir Brighton á 65. mínútu með góðu skoti úr teignum en Martinelli svaraði sex mínútum síðar með fjórða marki Arsenal.

William Saliba, varnarmaður Arsenal, leit illa út annan leikinn í röð er Evan Ferguson vann af honum boltann eftir sendingu frá Lewis Dunk og lagði boltann í gegnum Aaron Ramsdale í markinu.

Það stefndi allt í dramatískar lokamínútur er Mitoma kom boltanum í netið í annað sinn í leiknum en markið var tekið af heimamönnum vegna rangstöðu.

Lokatölur 4-2 fyrir Arsenal er á toppnum með 43 stig, sjö stigum meira en Manchester City sem er í öðru sæti. Búið að vera frábært ár hjá Mikel Arteta og hans mönnum en nú er komið að síðari hlutanum. Janúarglugginn er framundan og verður gaman að sjá hvernig liðið mætir inn í nýtt ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner