mán 24.jún 2013
Ellert: Ég var bara að reyna að vekja Fjalar
Ellert Hreinsson, framherji Breiðabliks í Pepsi-deild karla, var ánægður með 1-0 sigur liðsins á Val í dag.

Ellert skoraði sigurmarkið fyrir Blika eftir laglega sókn, en það skóp þrjú stig fyrir Blika sem sitja nú í fjórða sætinu.

,,Mjög ánægður, gerist varla sætara en þetta. Alltaf gaman að skora, en fyrst og fremst var þetta frábær varnarleikur sem skilaði þessum sigri í dag," sagði Ellert.

,,Hvorugt liðið gaf færi á sér í fyrri hálfleik, en svo náðum við þessu marki í seinni hálfleik og eftir það héldum við öguðum og þéttum varnarleik, þetta var einhvern veginn aldrei í hættu."

,,Við þiggjum alltaf þrjá punkta hvernig sem þeir koma. Við horfum fram að næsta leik og tökum einn leik í einu en við erum með okkar markmið og þetta er skref í átt að okkar markmiðum."


Ellert hljóp inn í Fjalar Þorgeirsson, markvörð Vals í leiknum og fékk að launum gult spjald, en Ellert skildi ekkert í því.

,,Ég var bara að reyna aðeins að vekja hann, mér fannst hann vera fölur. Ég átta mig ekki á því hvað ég að gera í þessari stöðu, ég er kominn á ferð og mér fannst hann hlaupa inn í mína hlaupalínu, en ætli þetta sé ekki reynslan hjá kallinum," sagði hann að lokum.