þri 14.nóv 2017
Arnór Smára: Segir sig sjálft að þetta er svekkjandi
„Það segir sig sjálft, að fá á sig svona mark í lokin er gríðarlega svekkjandi. Við spilum ekki okkar besta leik í dag, við eigum að gera betur," sagði Arnór Smárason, eftir 1-1 jafntefli Íslands gegn Katar í vináttulandsleik í Doha í dag.

„Við gleymum okkur og 1-1 eru svekkjandi úrslit."

Arnór spilaði fyrri hálfleikinn og hann var nokkuð sáttur með sína eigin frammistöðu í leiknum.

„Mér fannst ganga vel, ég reyndi að vera eins mikið í boltanum og ég gat, halda honum innan liðsins og dreifa spilinu, vinna mín einvígi. Mér fannst það ganga ágætlega."

„Heilt yfir er ég bara ágætlega sáttur."