sun 30.sep 2018
Bestur 2018: Besta tímabilið mitt
Patrick fagnar titlinum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Patrick Pedersen, framherji Vals, er leikmaður ársins í Pepsi-deildinni hjá Fótbolta.net. Patrick varð markahæstur í deildinni í sumar með 17 mörk en hann var farinn að ógna markametinu í deildinni (19 mörk) undir lok móts.

„Það mikilvægasta var að vinna titilinn. Ég var að hugsa um markametið þegar við vorum komnnir 3-0 yfir og reyndi mikið að skora, en það gekk ekki í dag. Ég er mjög ánægður með titilinn," sagði Patrick eftir 4-0 sigur Vals á Keflavíkur í lokaumferðinni í gær.

Patrick hefur raðað inn mörkum með Val undanfarin ár en hann segir að tímabilið í ár hafi verið það besta á ferlinum.

„Já, þetta var það. Sautján mörk er það mesta sem ég hef skorað," sagði Patrick.

Patrick kom aftur til Vals í fyrra eftir stutta dvöl hjá Viking í Noregi. Verður hann áfram hjá Val?

„Ég á tvö ár eftir af samningi mínum og það er það eina sem ég hugsa um. Umboðsmaður minn sér um annað," sagði Patrick en vill hann vera áfram á Hlíðarenda? „Af hverju ekki? Þetta er sterkt lið og það er gott fólk í kringum liðið."

Patrick telur að Valsliðið geti orðið ennþá sterkari á næsta tímabili. „Við höfum bætt okkur mikið á þessu tímabili . Við erum með mjög sterkt lið og marga unga leikmenn sem eru að koma inn," sagði Patrick.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Patrick í heild.

Sjá einnig:
Bestur 2017 - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Bestur 2016 - Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur)
Bestur 2015 - Emil Pálsson (FH)
Bestur 2014 - Ingvar Jónsson (Stjarnan)
Bestur 2013 - Baldur Sigurðsson (KR)
Bestur 2012 - Freyr Bjarnason (FH)
Bestur 2011 - Hannes Þór Halldórsson (KR)