lau 13.apr 2019
Rússland: Arnór spilaði í tapi á heimavelli - Einum færri í 65 mínútur
Arnór Sigurðsson var á sínum stað byrjunarliði CSKA Mosku sem að mætti Orenburg í rússnesku úrvalsdeildinni í dag.

Hörður Björgvin Magnússon byrjaði á varamannabekknum en hann kom inná þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Fyrri hálfleikurinn var ansi fjörugur en Ivan Oblyakov kom CSKA yfir á fjórtándu mínútu. Sú forysta dugði skammt því að Orenburg hafði jafnað stuttu síðar.

Orenburg tók síðan forystuna einni mínútu áður en að Mário Fernandes fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. CSKA spilaði því manni færri frá og með 25. mínútu leiksins.

Abel Hernández jafnaði fyrir CSKA fyrir hálfleik og var staðan því jöfn eftir 45 mínútur, 2-2.

Sigurmark leiksins skoraði Đorde Despotović síðan fyrir Orenburg í síðari hálfleik og 2-3 útisgiur Orenburg því staðreynd.

CSKA Moskva er með 40 stig í 3. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar en liðið sem að endar í því sæti fer í umspil í Meistaradeildinni.