þri 11.jún 2019
Hefur dæmt tvo af sögufrægustu leikjum Íslands
Szymon Marciniak.
Pólverjinn Szymon Marciniak dæmir landsleik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM í kvöld.

Íslendingar eiga ljúfar minningar frá leikjum sem Marciniak hefur dæmt.

Hann dæmdi magnaðan leik Íslands og Austurríkis í París í lokakeppni EM 2016. Þar vann Ísland dramatískan sigur og tryggði sér leik gegn Englandi í 16-liða úrslitum.

„Við eigum góðar minningar af honum, hann er frábær dómari. Hann er fyrrum leikmaður og er núna kominn í þennan elítuhóp. Hann er einn af 10 bestu dómurum Evrópu og ég á bara von á því að hann standi sig vel," sagði svo Kristinn Jakobsson, einn besti dómari sem Ísland hefur átt, um Marcianak á síðasta ári.

Marciniak dæmdi svo fyrsta leik Íslands á HM, 1-1 jafnteflisleikinn gegn Argentínu í Moskvu.

Leikur Íslands og Tyrklands hefst 18:45 í kvöld.