fim 19.sep 2019
Kokorin aftur til Zenit eftir fangelsisvistina (Staðfest)
Rússneski framherjinn Aleksandr Kokorin, sem er nýkominn úr fangelsi, er búinn að semja við Zenit St. Pétursborg í heimalandi sínu.

Kokorin, og Pavel Mamayev, gáfu sig fram til lögreglu síðasta haust eftir að hafa lamið ríkisstarfsmann á kaffihúsi auk leigubílstjóra sem var skammt frá kaffihúsinu. Birt var upptaka af kaffihúsinu þar sem Kokorin sést lemja manninn í höfuðið með stól.

Báðir eiga þeir landsleiki að baki fyrir Rússlandi, Kokorin 48 leiki og 12 mörk, Mamayev 15 landsleiki.

Mamayev var dæmdur í 17 mánaða fangelsi og Kokorin 18 mánaða fangelsi, en þeim var báðum sleppt í gær, tæpu ári eftir árásina.

Kokorin spilaði fyrir Zenit þegar árásin átti sér stað, en hann er búinn að semja aftur við Zenit. Hinn 28 ára gamli Kokorin gerði samning út tímabilið.

Mamayev lék með Krasnodar áður en hann var dæmdur í fangelsi. Talið er að Krasnodar vilji ekki semja við hann aftur.

Zenit er í öðru sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, eins og Íslendingafélögin Krasnodar og Rostov.