lau 05.okt 2019
England: Vítaspyrna í uppbótartíma tryggði Liverpool sigur
Marc Albrighton braut á Sadio Mane í uppbótartíma
Wesley skoraði tvö og Jack Grealish eitt.
Mynd: Getty Images

Fjórum leikjum var rétt í þessu að ljúka í ensku úrvalsdeildinni. Í sjónvarpsleik dagsins áttust við Liverpool og Leicester á Anfield.

Sadio Mane kom Liverpool yfir á 40. mínútu eftir að Johnny Evans missti sendingu frá James Milner innfyrir sig. Mane kláraði vel.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gerði tvær breytingar á liði sínu þegar tólf mínútur lifðu leiks. Roberto Firmino og Gini Wijnaldum yfirgáfu völlinn. Leicester var öflugt á þessum kafla og jafnaði leikinn en það gerði James Maddison eftir undirbúning frá varamanninum Ayoze Perez.

Liverpool reyndi eftir mestum mætti að knýja fram sigur og virtist Leicester vörnin ætla halda út. Liverpool fékk vítaspyrnu þegar brotið var á Sadio Mane í uppbótartíma og dauðafæri fyrir Liverpool að klára leikinn. James Milner steig á punktinn og skoraði af öryggi. Gífurlega svekkjandi fyrir Leicester en mjög svo sætt fyrir heimamenn í Liverpool.

Aston Villa kjöldróg Norwich á útivelli í dag. Villa leiddi 0-2 í leikhléi með mörkum frá Wesley sem klúðraði einnig vítaspyrnu. Mörk frá Jack Grealish, Conor Hourihane og Douglas Luiz innsigluðu sigurinn. Josip Drmic skoraði sárabótarmark fyrir Norwich undir lokin.

Gylfa fórnað
Burnley lagði Everton í Íslendingaslag í dag. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og Gylfi Þór Sigurðsson var í liði Everton.

Seamus Coleman fékk að líta sitt annað gula spjald á 56. mínútu og þremur mínútum seinna var Gylfi tekinn af velli fyrir Djibril Sidibe. Jeff Hendrick gerði sigurmark leiksins á 72. mínútu leiksins.

Þá gerðu Watford og Sheffield United markalaust jafntefli.

Burnley 1 - 0 Everton
1-0 Jeff Hendrick ('72 )
Rautt spjald:Seamus Coleman, Everton ('57)

Liverpool 1 - 1 Leicester City
1-0 Sadio Mane ('40 )
1-1 James Maddison ('80 )
2-1 James Milner ('90+5, víti )

Norwich 1 - 5 Aston Villa
0-1 Wesley ('14 )
0-2 Wesley ('30 )
0-2 Wesley ('38 , Misnotað víti)
0-3 Jack Grealish ('49 )
0-4 Conor Hourihane ('61 )
0-5 Douglas Luiz ('83 )
1-5 Josip Drmic ('87 )

Watford 0 - 0 Sheffield Utd