mán 14.okt 2019
[email protected]
Undankeppni EM: Góður sigur á Andorra - Slæm úrslit í Frakklandi
 |
Ísland vann Andorra en hér fagna Íslendingar marki Arnórs Sigurðssonar |
 |
Olivier Giroud skoraði en það var ekki nóg til að ná í sigur gegn Tyrkjum |
Mynd: EPA
|
Ísland 2 - 0 Andorra 1-0 Arnór Sigurðsson ('38 )
2-0 Kolbeinn Sigþórsson ('65 )
2-0 Gylfi Þór Sigurðsson ('73 , Misnotað víti)
Íslenska landsliðið vann Andorra 2-0 í H-riðli í undankeppni Evrópumótsins í kvöld en leikurinn fór fram á Laugardalsvelli. Kolbeinn Sigþórsson jafnaði markamet Eiðs Smára Guðjohnsen.
Íslenska liðið var töluvert meira með boltann en gekk illa að skapa góð marktækifæri. Það var ekki fyrr en á 38. mínútu er Arnór Sigurðsson kom íslenska liðinu yfir.
Guðlaugur Victor Pálsson átti þá fyrirgjöf sem Kolbeinn skallaði á fjærstöngina og var Arnór mættur til að koma boltanum yfir línuna en þetta var fyrsta landsliðsmark Arnórs.
Á 65. mínútu bætti Kolbeinn við marki en Ragnar Sigurðsson átti þá góða sendingu á Kolbein sem lék á varnarmann og markvörðurinn missti jafnvægið áður en hann skoraði. 26. mark Kolbeins fyrir Ísland og jafnar þar með með Eiðs Smára Guðjohnsen.
Ísland fékk víti á 73. mínútu er Arnór Ingvi Traustason kom með sendingu inn í teig. Marc Rebes handlék knöttinn og vítaspyrna dæmd. Gylfi Þór Sigurðsson steig á punktinn en lét Joseb Gomes verja frá sér.
Öruggur og jafnframt þægilegur sigur á Andorra. Ísland með 15 stig, fjórum stigum á eftir Tyrklandi og sex stigum á eftir Frakklandi. Ísland þarf því að vinna Tyrkland og treysta á að Tyrkir tapi stigum gegn Andorra í lokaleiknum til að komast beint á EM. Ísland fer líklega ekki beint á EM Í H-riðlinum gerðu Frakkar og Tyrkir 1-1 jafntefli. Frakkar voru töluvert betri aðilinn og áttu stórsókn á mark Tyrklands en það var ekki fyrr en á 76. mínútu er Olivier Giroud kom Frakklandi yfir og það við mikinn fögnuð stuðningsmanna íslenska liðsins.
Kaan Ayhan var þó snöggur að bregðast við og jafnaði nokkrum mínútum síðar. Lokatölur 1-1 og þetta þýðir það að Tyrkland og Frakkland eru jöfn að stigum með 19 stig, fjórum stigum á undan Íslandi þegar tveir leikir eru eftir.
Það eru því sáralitlar líkur á því að Ísland endi í efstu tveimur sætunum. Hins vegar fer liðið í Þjóðadeildarumspilið í mars þar sem sæti í EM er í boði. Úrslit og markaskorarar: Moldóva 0 - 4 Albanía 0-1 Sokol Cikalleshi ('22 )
0-2 Keidi Bare ('34 )
0-3 Lorenc Trashi ('40 )
Frakkland 1 - 1 Tyrkland 1-0 Olivier Giroud ('76 )
1-1 Kaan Ayhan ('82 )
|