fös 18.okt 2019
Páll Viðar Gíslason tekinn við Þór (Staðfest)
Páll Viðar Gíslason hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari Þórs eftir næstum tvö ár við stjórnvölinn hjá Magna. Hann hefur reynslu hjá Þór eftir að hafa stýrt liðinu í átta ár, frá 2006 til 2014.

Hann stýrði Þór alla leið í bikarúrslitin 2012 og fór tvisvar sinnum með liðið upp um deild. Eftir slakt tímabil 2014 skipti hann yfir til Völsungs, var þar í tvö ár og fór svo yfir til Magna.

Páll Viðar sagði upp hjá Magna í byrjun ágústmánaðar þegar liðið var í neðsta sæti Inkasso-deildarinnar.

Páll, fæddur 1970, á flottan feril að baki í íslenska boltanum þar sem hann lék hátt upp í 200 leiki fyrir Þór.

Páll skrifar undir þriggja ára samning við félagið sem gildir út sumarið 2022.