fim 12.des 2019
Freund: Haaland búinn að ræða við Dortmund og Leipzig
Christoph Freund, yfirmaður íþróttamála hjá Red Bull Salzburg, staðfesti í samtali fyrr í dag að Erling Braut Haaland og Takumi Minamino eru á leið frá félaginu.

Freund staðfesti að Haaland var í Þýskalandi í gær. Þar ræddi hann við stjórnendur Borussia Dortmund og RB Leipzig.

Norðmaðurinn ungi hefur verið funheitur í haust og er búinn að skora fleiri mörk heldur en hann er búinn að spila fótboltaleiki. Þetta á við um austurrísku deildina og Meistaradeildina, en hann er kominn með eitt mark á 20 mínútum í austurríska bikarnum.

Þá er japanski kantmaðurinn Takumi Minamino á leið til Liverpool fyrir rétt rúmlega 7 milljónir punda. Salzburg vildi ekki selja Minamino en riftunarákvæði í samningi hans gerir hann falann fyrir lítinn pening.

Salzburg var slegið úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn þegar liðið tapaði 0-2 gegn Liverpool á heimavelli. Austurrísku meistararnir munu því spila í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar eftir áramót.

Ef Haaland og Minamino skipta um félag í janúar verða þeir báðir gjaldgengir til að spila í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar vegna nýrra reglna um skráningu leikmanna.