mán 05.okt 2020
Choupo-Moting kominn til Bayern (Staðfest)
Eric Maxim Choupo-Moting, fyrrum leikmaður Stoke City, er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Evrópumeistara FC Bayern.

Þar mun þessi 31 árs gamli sóknarmaður vera varaskeifa fyrir besta leikmann heims, Robert Lewandowski.

Eftir að Choupo-Moting féll úr ensku úrvalsdeildinni með Stoke City 2018 var hann fenginn til Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain. Þar skoraði hann 9 mörk í 51 leik en samningurinn var að renna út.

Choupo-Moting er landsliðsmaður Kamerún og hefur skorað 15 mörk í 55 leikjum fyrir þjóð sína.

Choupo-Moting er sjötti leikmaðurinn sem kemur til Bayern í sumarglugganum. Félagið staðfesti komu miðjumannsins Marc Roca í gær og er búist við einum eða tveimur leikmönnum í viðbót í dag.