lau 10.okt 2020
Daníel Leó og Hólmbert þakka fyrir sig
Hólmbert og Daníel Leó.
Hólmbert Aron Friðjónsson og Daníel Leó Grétarsson yfirgáfu báðir Álasund í Noregi áður en félagaskiptaglugginn lokaði í vikunni.

Daníel samdi við Blackpool á Englandi og Hólmbert fór til Brescia á Ítalíu. Hólmbert hafði verið hjá Álasundi frá 2018 og Daníel hafði verið hjá félaginu frá 2015. Davíð Kristján Ólafsson er eini Íslendingurinn sem eftir er hjá Álasundi, sem hefur síðustu árin verið mikið Íslendingafélag.

Bæði Daníel Leó og Hólmbert þökkuðu fyrir tíma sinn hjá Álasundi á samfélagsmiðlum. Heimasíða félagsins vekur athygli á þessu.

„Árið 2018 varð ég hluti af Álasundi, og það er eitthvað sem ég mun muna eftir í langan tíma. Ég var þar í þrjú ár og félagið verður alltaf í hjarta mínu. Núna er kominn tími á að taka næsta skref. Ég vil þakka stuðningsmönnunum, fólkinu í kringum félagið og auðvitað liðsfélögunum," skrifar Hólmbert og heldur áfram.

„Vegna ykkar þá óx ég sem manneskja og sem fótboltamaður. Saman höfum við upplifað hæðir og lægðir, og þannig er það að vera í fótbolta. Ég vil óska Álasundi alls hins besta og vonandi verðið þið í efstu deild á næstu árum, vegna þess að þar eigið þið að vera."

Daníel skrifar: „Takk kærlega fyrir sex góð ár. Það voru hæðir og lægðir, en ég er ánægður að hafa vaxið bæði sem manneskja og leikmaður. Ég mun klárlega koma aftur einn daginn. Ég hef eignast marga góða vini og Álasund er heimabær sonar míns. Takk fyrir allt."

Svo er skrifað á heimasíðu Álasunds: „Takk kærlega fyrir hlýju orðin Daníel og Hólmbert, og gangi ykkur vel."