mið 11.nóv 2020
[email protected]
Alfons: Fáránlega gaman að geta keppt um þetta
 |
Alfons á æfingu á Víkingsvelli í dag. |
„Við vorum klárir í þetta fyrir mánuði og við erum allir klárir í þetta núna. Þetta verður mjög gaman," sagði Alfons Sampsted við Fótbolta.net í dag en hann verður í eldlínunni með U21 landsliði Íslands gegn Ítalíu á morgun.
Þessi lið eru í harðri baráttu um sæti á EM á næsta ári en Ísland er stigi á eftir toppliði Ítalíu. Upphaflega átti þessi leikur að fara fram í síðasta mánuði en það gekk ekki eftir kórónuveirusmit í liði Ítalíu.
„Þetta er ekki í okkar höndum og við fókusum á það sem við getum fókusað á. Það verður ennþá skemmtilegra að spila leikinn núna, þá er maður búinn að undirbúa sig í mánuð í staðinn fyrir fimm daga." Bjartsýnn fyrir EM baráttuna Ísland mætir Ítalíu á morgun og Írlandi í síðasta leik sínum um helgina en Alfons er bjartsýnn fyrir þessa leiki. „Mér líður þannig út frá æfingum vikunnar að allir vita sitt hlutverk. Það eru allir á sömu blaðsíðu og það er mjög þægileg tilfinning," sagði Alfons.
„Ég hef þvílíkt mikla trú á okkur. Við höfum sýnt það í þessu móti að kerfið okkar er gott og ef við fylgjum því þá getum við náð í góð úrslit. Ég tel okkur eiga fína möguleika. Að sjálfsögðu er markmiðið að fara alla leið á EM og það er fáránlega gaman að vera í þeirri stöðu að geta keppt um þetta." Öflugur heimavöllur Íslenska liðið hefur unnið alla fjóra heimaleiki sína á Víkingsvelli í undankeppninni. „Við töluðum um það í byrjun að hafa einn heimavöll og hafa það þannig að það yrði leiðinlegt fyrir hin liðin að koma til Íslands og spila á þessum velli. Við erum góðir á þessum velli og við höfum búið þetta til. Ég hugsa að þeir beri virðingu fyrir okkur," sagði Alfons.
|