lau 27.feb 2021
Lengjubikar kvenna: Dramatík í jafntefli Blika og Fylkis
Bryndís gerði tvö.
Breiðablik 2 - 2 Fylkir
0-1 Bryndís Arna Níelsdóttir('76)
0-2 Bryndís Arna Níelsdóttir('80, víti)
1-2 Vigdís Eda Friðriksdóttir('85)
2-2 Karitas Tómasóttir('90)

Það var boðið upp á dramatík í Lengjubikar kvenna í dag er Breiðablik og Fylkir áttust við í Fífunni.

Allt fjörið var í seinni hálfleik í dag en þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum voru Fylkisstúlkur komnar með tveggja marka forystu.

Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fylki með stuttu millibili og það seinna úr vítaspyrnu.

Á 85. mínútu minnkaði varamaðurinn Vigdís Edda Friðriksdóttir muninn fyrir Blika og vonin lifði enn fyrir heimaliðið.

Það var svo Karitas Tómasdóttir sem jafnaði metin á lokamínútu leiksins til að tryggja þeim grænklæddu stig úr viðureigninni.

Bæði lið eru með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en Blikar í toppsætinu með betri markatölu.