fim 13.maí 2021
Þýski bikarinn: Dortmund meistari eftir sigur á Leipzig
Tvenna plús tvenna.
RB Leipzig 1 - 4 Dortmund
0-1 Jadon Sancho ('5)
0-2 Erling Braut Haaland ('28)
0-3 Jadon Sancho ('45)
1-3 Dani Olmo ('71)
1-4 Erling Haaland ('87)

Borussia Dortmund er þýskur bikarmeistari í fimmta sinn eftir sigur á RB Leipzig á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.

Dortmund mætti í leikinn af miklum krafti. Enski kantmaðurinn Jadon Sancho skoraði fyrsta mark leiksins eftir fimm mínútna leik og hann var aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks. Erling Braut Haaland skoraði í millitíðinni og var staðan 0-3 í hálfleik.

Úrslitin voru svo gott sem ráðin. Dani Olmo minnkaði muninn fyrir Leipzig á 71. mínútu en Haaland bætti við öðru marki sínu áður en flautað var af og lokatölur 1-4 fyrir Dortmund.

Leipzig var sterkari aðilinn í leiknum en Dortmund nýtti sín færi vel og er sigurvegari í þýska bikarnum í fimmta sinn í sögu félagsins. Leipzig hefur aldrei unnið keppnina.