sun 12.sep 2021
Hlín Eiríks fór meidd af velli - Ekki með gegn Hollandi?
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu
Íslenska landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir fór meidd af velli í fyrri hálfleik í 1-0 sigri Piteå gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni í dag en hún er í landsliðshópnum fyrir landsleikinn gegn Hollandi í undankeppni HM.

Hallbera Guðný Gísladóttir og Hlín spiluðu báðar leikinn en Hallbera lék allan leikinn fyrir AIK á meðan Hlín þurfti að fara af velli á 27. mínútu leiksins í liði Piteå.

Hlín samdi við Piteå í desember á síðasta ári en hún á 19 landsleiki og 3 mörk að baki fyrir A-landslið Íslands.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari landsliðsins, valdi hana í hópinn fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM.

Hlín fór eins og áður segir meidd af velli á 27. mínútu er því staða hennar óljós.

Ísland mætir Hollandi þann 21. september á Laugardalsvelli en þetta er fyrsti leikur íslenska liðsins í undankeppninni.