mán 25.okt 2021
Stórkostlegt að fá Glódísi - „Hugsa um mig eins og mamma og pabbi"
Glódís og Karólína sáttar eftir leikinn gegn Tékkum.
Karólína á fundinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Glódís Perla Viggósdóttir gekk í raðir Bayern Munchen í sumar frá sænska liðinu Rosengård. Bayern er þýskur meistari og hjá liðinu er liðsfélagi Glódísar í landsliðinu, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Sjá einnig:
Glódís fékk innherjaupplýsingar frá Karólínu

Karólína sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag en á morgun mætir landsliðið liði Kýpur í undankeppni HM. Karó varð spurð út í Glódísi.

Orðinn eitthvað litla barn þarna
Hvernig er að fá Glódísi til Bayern?

„Það er búið að vera stórkostlegt. Ég get ekki kvartað. Hún og Kristófer [Eggertsson, sambýlismaður Glódísar], sem er líka flottur á Twitter „by the way", eru búin að hugsa um mig eins og mamma og pabbi. Það er búið að vera yndislegt,“ sagði Karólína létt.

Ertu mikið að hitta þau eftir æfingar og svoleiðis?

„Þau eru dugleg að bjóða manni í mat og maður er bara orðinn eitthvað litla barn þarna.“

„Svo hefur Glódís komið fáránlega vel inn í liðið. Maður sér núna hversu frábær íþróttakona hún er – smellpassaði bara inn í hópinn og ég held að hún sé strax orðin ein af lykilmönnunum,“ bætti Karólina við.