mán 22.nóv 2021
[email protected]
Vlahovic slær í gegn - Upp fyrir Haaland
 |
Vlahovic er fáanlegur fyrir 70 milljónir evra. |
Serbneski sóknarmaðurinn Dusan Vlahovic hefur heldur betur slegið í gegn með Fiorentina.
Um liðna helgi skoraði hann tvö mörk þegar Fiorentina fór með sigur af hólmi gegn AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í miklum markaleik.
Vlahovic er núna næst markahæstur af leikmönnum sem spila í fimm stærstu deildum Evrópu á almanaksárinu 2021.
Aðeins Robert Lewandowski, sóknarmaður Bayern München, er með fleiri mörk. Vlahovic er kominn fram úr Erling Braut Haaland, sóknarmanni Borussia Dortmund. Vlahovic hefur skorað 27 mörk og Haaland, sem hefur verið meiddur síðustu vikur, hefur skorað 26 mörk.
Vlahovic, sem er 21 árs gamall, verður örugglega ekki leikmaður Fiorentina mikið lengur. Ítalski fjölmiðlamaðurinn Fabrizio Romano segir að Vlahovic sé eftirsóttur og hann sé fáanlegur fyrir 70 milljónir evra.
|