mán 22.nóv 2021
Pochettino sagður tilbúinn að hætta hjá PSG strax til að taka við Man Utd
Mauricio Pochettino.
Daily Mail segir að Mauricio Pochettino sé tilbúinn að hætta strax hjá Paris Saint-Germain til að taka við Manchester United.

Michael Carrick hefur tekið við United tímabundið en félagið segist vera í leit að bráðabirgðastjóra út tímabilið. Miðað við yfirlýsingu félagsins á ekki að ráða framtíðarstjóra fyrr en næsta sumar.

En Pochettino er sagður óánægður í frönsku höfuðborginni. Hann býr á hóteli á meðan fjölskylda hans býr í London.

Pochettino var sterklega orðaður við stjórastarfið hjá United þegar Ole Gunnar Solskjær var ráðinn.

Þess má geta að Pochettino fer til Manchester á morgun en PSG á leik gegn Manchester City í Meistaradeildinni á miðvikudag.

Zinedine Zidane er einn af þeim sem hefur verið orðaður við United en BBC segir að sá franski hafi ekki áhuga á að taka við liðinu. Hann gæti hinsvegar tekið við PSG ef Pochettino fer þaðan.