fös 26.nóv 2021
[email protected]
Davíð Atla og Karl Friðleifur frá Breiðabliki í Víking (Staðfest)
 |
Davíð Örn Atlason stoppaði stutt í Breiðabliki og er aftur kominn heim í Víking. |
Víkingur tilkynnti á fréttamannafundi rétt í þessu að Karl Friðleifur Gunnarsson og Davíð Örn Atlason séu gengnir í raðir félagsins frá Breiðabliki. Þeir sömdu báðir við Íslandsmeistarana til þriggja ára.
Víkingur og Breiðablik háðu mikla baráttu um Íslandsmeistarabikarinn í sumar en að lokum voru það Víkingarnir sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Þeir fá nú tvo leikmenn frá Blikum.
Síðan í haust hafa Víkingar farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum og fengið þá Arnór Borg Guðjohnsen frá Fylki, Kyle McLagan frá Fram og Birni Snæ Ingason frá HK. Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen hafa lagt skóna á hilluna.
Davíð Örn Atlason er 27 ára gamall bakvörður sem fór frá Víkingi í Breiðablik fyrir ári síðan. Hann spilaði aðeins 10 deildarleiki með Blikum í sumar eftir að hafa glímt lengi við meiðsli.
Karl Friðleifur er tvítugur og uppalinn í Breiðabliki. Hann var lánaður til Víkings síðasta sumar og spilaði 18 leiki í deildinni. Að tímabilinu loknu sneri hann aftur í Breiðablik. Hann gengur nú alfarið í raðir Víkinga.
|