mán 29.nóv 2021
Chelsea fer á HM félagsliða í byrjun febrúar
Thomas Tuchel.
Færa þarf tvo úrvalseildarleiki hjá Chelsea og mögulega einn bikarleik þar sem liðið heldur á HM félagsliða í byrjun febrúar.

Mótið verður haldið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og er Chelsea fulltrúi Evrópu eftir að hafa unnið Meistaradeildina fyrr á þessu ári.

Chelsea gæti farið í gegnum tæpan mánuð án þess að spila í úrvalsdeildinni og gæti það haft áhrif á titilbaráttuna þar sem Chelsea er að berjast við Liverpool og Manchester City.

Al Hilal, Al Ahly, CF Monterrey, Auckland City og Palmeiras munu einnig taka þátt í HM félagsliða ásamt heimamönnum í Al Jazira.

Chelsea kemur beint inn í undanúrslitin. Evrópumeistararnir hafa unnið HM félagsliða í átta síðustu skipti sem keppnin hefur verið haldin en Bayern München lyfti bikarnum í Katar í febrúar.