fim 02.des 2021
Dómstóll úrskurðar að leikir í La Liga megi ekki fara fram utan Spánar
Hard Rock völlurinn í Miami en þar átti Barcelona að spila deildarleik.
Spænska fótboltasambandið hefur unnið dómsmál gegn spænsku deildinni, La Liga.

Fyrir tveimur árum tilkynnti deildin að leikur Barcelona og Girona myndi fara fram í Miami í Bandaríkjunum. Leikurinn átti að vera leið til að kynna spænskan fótbolta í bandarískum markaði.

Ekkert varð úr því að leikurinn yrði í Bandaríkjunum þar sem spænska sambandið stöðvaði það og sagði að allir leikir í spænsku deildinni ættu að vera spilaðir á Spáni.

Dómsmál fór af stað í kjölfarið og héraðsdómsstóllinn í Madríd úrskurðaði í dag að allir deildarleikir yrðu að vera spilaðir á Spáni. Margir fótboltaáhugamenn í landinu gleðjast yfir þessari niðurstöðu.