lau 04.des 2021
Diego fiskaði víti í sigri - Elfsborg missti af Evrópusæti
Diego Jóhannesson fiskaði víti fyrir Albacete
Adam Ingi Benediktsson stóð í rammanum hjá Gautaborg
Mynd: Guðmundur Svansson

Glódís Perla spilaði í stórsigri Bayern
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það voru margir Íslendingar á ferðinni í Evrópuboltanum í dag en Diego Jóhannesson fiskaði vítaspyrnu í 2-0 sigri Albacete á Spáni og þá er Íslendingalið Lecce á toppnum í ítölsku B-deildinni.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Adana Demirspor er liðið tapaði fyrir Trabzonspor, 2-0. Hann fór af velli á 61. mínútu leiksins en Adana er í 10. sæti með 20 stig á meðan Trabzonspor er að stinga af í deildinni og er á toppnum með 39 stig, þrettán stigum á undan næsta liði.

Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Leuven í belgísku deildinni í 1-0 tapi gegn Gent. Rúnar hefur tekist að festa stöðuna í marki Leuven en hann er á láni frá Arsenal.

Lecce er þá í toppsætinu í ítölsku B-deildinni eftir 2-0 sigur á Reggina og kom Þórir Jóhann Helgason við sögu. Hann spilaði síðustu fimm mínúturnar í sigrinum en Brynjar Ingi Bjarnason sat enn og aftur allan tímann á bekknum.

Mikael Egill Ellertsson kom inná sem varamaður á 66. mínútu hjá SPAL sem vann 2-1 sigur á Crotone. SPAL er í 14. sæti B-deildarinnar með 20 stig.

Íslendingarnir tveir í þýsku B-deildinni, Guðlaugur Victor Pálsson og Hólmbert Aron Friðjónsson, töpuðu báðir í dag. Guðlaugur Victor var í byrjunarliði Schalke sem tapaði fyrir St. Pauli, 2-1, en hann fór af velli á 73. mínútu. Hólmbert kom þá inná sem varamaður er Holsten Kiel tapaði fyrir Nüremberg, 2-1.

Schalke er í 7. sæti með 26 stig en Holsten Kiel í 13. sæti með 17 stig.

Malmö meistari - Elfsborg missti af Evrópusæti

Sænska úrvalsdeildin kláraðist í dag. Malmö var meistari þrátt fyrir markalaust jafntefli gegn Halmstad. AIK vann Sirius á meðan, 4-2, en tapaði deildinni á slakari markatölu.

Aron Bjarnason spilaði fyrir Sirius en hann kom inná á 76. mínútu leiksins. Sveinn Aron Guðjohnsen kom inná á 90. mínútu hjá Elfsborg á meðan Hákon Rafn Valdimarsson sat á bekknum.

Adam Ingi Benediktsson stóð í rammanum er Gautaborg vann Norrköping, 2-1. Jóhannes Kristinn Bjarnason var á bekknum hjá Norrköping en Ari Freyr Skúlason var ekki með vegna meiðsla.

Rúnar Már og félagar á toppnum

Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Cluj sem vann 1-0 sigur á Chindia Targoviste. Rúnar fór af velli á 61. mínútu. Cluj er á toppnu með 48 stig.

Emil Hallfreðsson og félagar í Virtus Verona gerðu markalaust jafntefli við Albinoleffe í A-riðli ítölsku C-deildarinnar. Emil var í byrjunarliði Verona og spilaði 75 mínútur. Liðið er í 8. sæti riðilsins með 21 stig.

Diego Jóhannesson spilaði allan leikinn er Albacete vann 2-0 sigur á Alcoyano í spænsku D-deildinni. Hann fiskaði vítaspyrnu í stöðunni 1-0 og nýttu Albacete-menn spyrnuna. Albacete er í 2. sæti í riðli 2 með 29 stig.

Glódís kom inná í stórsigri Bayern

Glódís Perla Viggósdóttir kom inná sem varamaður á 66. mínútu er Bayern München vann 7-1 stórsigur á Bayer Leverkusen í þýsku deildinni. Bayern er í efsta sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur stigum meira en Wolfsburg.