þri 07.des 2021
„Sögðu að þeir myndu líklegast ekki taka þetta lengra í janúar"
Jóhann Árni Gunnarsson.
Miðjumaðurinn Jóhann Árni Gunnarsson er orðinn leikmaður Stjörnunnar. Hann kom til félagsins eftir að hafa gert það gott með Fjölni.

Þessi tvítugi leikmaður valdi á milli FH, KR og Stjörnunnar. Og valdi hann að fara í Garðabæinn.

Hann fór líka erlendis á reynslu nýverið. Hann æfði með Viborg í Danmörku. Var möguleiki fyrir hann að fara þangað?

„Mér fannst ganga vel, en það hefði verið stórt skref að fara beint úr Fjölni í þetta. Ég er sáttur við reynsluna en það fer ekkert lengra held ég," sagði Jóhann í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Þeir sögðu við mig að þeir myndu líklegast ekki taka þetta lengra í janúar þó ég hefði staðið mig vel."

Jóhann Árni er tvítugur miðjumaður sem á að baki nítján leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann hefur verið einn besti leikmaður Fjölnis síðustu ár. Hann spilaði 20 leiki í Lengjudeildinni í fyrra og skoraði níu mörk. Hann var í kjölfarið valinn í lið ársins.

Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum fyrir neðan.