mið 26.jan 2022
Daniel Wass á leið til Atlético
Daniel Wass er að ganga til liðs við Spánarmeistara Atlético Madríd
Danski hægri bakvörðurinn Daniel Wass er að ganga til liðs við Atlético Madríd frá Valencia.

Wass, sem er 32 ára gamall, hefur spilað á Spáni síðustu sjö ár, fyrst með Celta Vigo og svo með Valencia.

Hann er hægri bakvörður að upplagi en getur einnig leyst af á miðsvæðinu.

Spænska félagið Atlético Madríd hefur síðustu daga verið í viðræðum við Valencia um að fá Wass en nú er samkomulag í höfn. Atlético greiðir Valencia 2,7 milljónir evra fyrir leikmanninn og gerir hann átján mánaða samning.

Wass kemur inn fyrir Kieran Trippier sem yfirgaf félagið í byrjun mánaðarins og samdi við Newcastle United.