fim 12.maí 2022
Lærisveinar Freysa unnu - AGF tapaði gegn Vejle í fallbaráttuslag
Tekst Freysa að koma Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina?
Agla María er á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í danska B-deildarliðinu Lyngby unnu Hvidovre, 1-0, í meistarariðli deildarinnar í dag og er Lyngby á toppnum þegar þrír leikir eru eftir.

Sævar Atli Magnússon byrjaði á bekknum gegn Hvidovre en kom inná þegar tæpar fimmtán mínútur voru eftir. Eftir sigurinn er Lyngby á toppnum með 56 stig en liðið á afar mikilvægan leik fyrir höndum í næstu umferð er það mætir Helsingör.

Í fallriðlinum í úrvalsdeildinni náði Vejle að vinna AGF 1-0. Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson spiluðu allan leikinn fyrir AGF sem er í 10. sæti með 29 stig, þremur stigum meira en Vejle þegar tveir leikir eru eftir.

Markalaust í Íslendingaslag

Topplið Viking í norsku úrvalsdeildinni gerði markalaust jafntefli við Strömsgodset. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð á milli stanganna hjá Viking en Samúel Kári Friðjónsson kom inná sem varamaður á 58. mínútu.

Ari Leifsson spilaði allan tímann í vörn Strömsgodset. Viking er á toppnum með 16 stig en Strömgodset í 10. sæti með 7 stig.

Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson léku þá allan leikinn er Vålerenga tapaði fyrir Tromsö, 1-0. Vålerenga er í 5. sæti með 9 stig.

Agla á toppnum í Svíþjóð

Agla María Albertsdóttir kom inná sem varamaður á 80. mínútu er Häcken vann Örebro 1-0. Berglind Ágúsdóttir kom inná hjá Örebro, tveimur mínútum á eftir Öglu. Häcken er á toppnum með 18 stig.

Hlín Eiríksdóttir var þá í byrjunarliði Piteå sem tapaði fyrir Linköping, 2-0. Hún fór af velli á 83. mínútu leiksins en Piteå er í 5. sæti með 13 stig.