mán 16.maí 2022
Markvörður Vestra á sjúkrahúsi - Hjarta hans fór að stækka eftir lungnabólgu
Brenton Muhammad hefur verið hjá Vestra síðan 2018.
Brenton Muhammad markvörður Vestra hefur ekki spilað fyrstu tvo leiki Vestra en 433.is greinir frá því að hann hafi verið á sjúkrahúsi síðustu tvær vikur eftir að hjarta hans fór að stækka í kjölfar lungnabólgu.

„Hann var sendur suður til Reykjavíkur á sjúkrahús og er þar ennþá. Hann er allur að koma til en það er verið að fylgja honum eftir. Hann er ekkert að spila fótbolta á næstunni," segir Samúel Samúelsson hjá Vestra við 433.is

„Hann var slappur fyrir æfingaleik á móti ÍA sem var viku fyrir mót. Á þriðjudegi var hann enn slappur og lét þá skoða sig, þetta var þá niðurstaðan."

Marvin Darri Steinarsson hefur varið mark Vestra í upphafi móts en liðið er með þrjú stig eftir tvo leiki. Liðið tapaði gegn Gróttu en vann Aftureldingu.